Það var komið að þriðja leiknum í skemmtilegustu seríu úrslitakeppninnar til þessa er Grindvíkingar komu aftur í MG-höllina í Garðabæ. Grindavík jafnaði metin á sínum heimavelli í síðasta leik á kannski óþarflega dramatískan hátt að mati gulra.

Spádómskúlan: Kúlan birtir óvæntar myndir að þessu sinni sem allar benda til sigurs gulra. Myndirnar eru allar með páskagulum blæ þar sem leikmenn Stjörnunnar eru steinrunnir á svip en Grindvíkingar kátir og brosmildir. Kúlan bar spádóm sinn að þessu sinni undir leikmann Grindavíkur sem staðfesti meiningu hennar. Lokatölur verða 76-79.

Byrjunarlið:

Grindavík: Óli, Kuiper, Arnar, Ingvi, Clinch

Stjarnan: Hlynur, Pryor, Rozzell, Antti, Ægir

Gangur leiksins

Það var bara ágætlega heitt í húsinu strax í byrjun, vel mætt og herra Garðabær auðvitað á staðnum til að keyra þetta í gang. Gestirnir voru tilbúnir í slaginn og meistari Óli Ól hóf leikinn með körfu góðri og smellti vítinu. Grindvíkingar leiddu 5-9 um miðjan leikhlutann en þá fór heldur að þyngjast róðurinn. Stjörnumenn voru svolítið seinir í gang en sóknarfráköst smurðu vélina, gáfu fleiri skot og það var einkum Antti sem nýtti sér það. Staðan eftir einn 18-14.

Lítið breyttist í öðrum leikhluta. Vörn heimamanna varð enn þéttari og 3/15 þriggja stiga nýting gestanna í hálfleik segir svolítið þá sögu. Öll stig voru harðsótt fyrir gestina og Stjörnumenn, einkum Bæringsson, héldu áfram að búa til fleiri skottilraunir með sóknarfráköstum. Ægir var gersamlega frábær í öllum fyrri hálfleiknum, skoraði alls konar körfur og varnarlega er engu líkara en að hann geti galdrað sig á augabragði hvert sem er! Drengurinn var með 15 stig í hálfleik. Þrátt fyrir góða innkomu Hilmis Kristjáns fyrir gestina leiddu heimamenn 47-35 í pásunni.

Rozzell hafði frekar hægt um sig í fyrri hálfleik en byrjaði þann seinni af krafti og kom sínum mönnum í 54-37. Ægir hélt svo uppteknum hætti og ef Clinch hefði ekki loksins hrokkið í gang um stundarsakir hefðu heimamenn stungið endanlega af. Arnar tók svo við keflinu af Clinch og með eldsnöggum 6 stigum í lok fjórðungsins setti hann stöðuna í 70-62 og gaf Grindjánum aftur von.

Arnar hóf fjórða leikhluta með þristi og minnkaði muninn niður í 5 stig. Það reyndist vera minnsta bilið sem á liðunum varð það sem eftir lifði leiks, Antti, Rozzell og ekki síst Ægir svöruðu fyrir heimamenn. Um miðjan leikhlutann setti Kuiper þrist og minnkaði muninn í 82-73 en hann var einfaldlega ekki með í sóknarleiknum fram eftir öllum leiknum. Það reyndist of lítið og of seint fyrir gestina og Jói Ól ákvað að játa sig sigraðan þegar mínúta var eftir í stöðunni 93-81. Lokatölur urðu 98-81.

Maður leiksins

Ægir Þór Steinarsson er án nokkurs vafa maður leiksins. Hann skoraði 27 stig, gaf 6 stoðsendingar og hirti 8 fráköst og bæta má við að framlag hans varnalega var ekki minna virði. Geggjaður leikur hjá kauða.

Tölfræðipunktar

Stjarnan tók 16 sóknarfráköst og hittu einnig talsvert betur. Það er augljóslega siguruppskrift enda töpuðu liðin jafn mörgum boltum.

Kjarninn

Stjörnumenn eru þá komnir í 2-1 í einvíginu. Að mati undirritaðs sýndu þeir svolítið tennurnar í þessum leik, vörnin var á löngum köflum kæfandi mögnuð og Ægir, Antti og Rozzell mynduðu sóknarsvikamyllu ásamt Hlyni Bærings í sóknarfráköstunum. Þegar allt smellur hjá Stjörnumönnum eru þeir eins og 20 metra tsunami – með Ægi í broddi fylkingar.

Grindvíkingar þurfa ekki að skammast sín fyrir frammistöðuna, alls ekki. Gleði og barátta einkenndi þeirra leik og meint bágborið andlegt ástand liðsins að mati spádómskúlunnar um daginn reyndist byggt á misskilningi. Kúlan fór þó aðeins framúr sér með sigurspádómum fyrir Grindvíkinga en ætli sigurinn komi ekki bara í Grindavík í næsta leik. Benda má á að Clinch og Kuiper voru samanlagt með 4 stig í hálfleik og það þolir liðið auðvitað ekki. Þrátt fyrir góða vörn Stjörnunnar verða þessir atvinnumenn að mæta á réttum tíma í vinnuna í næsta leik.

Tölfræði leiksins ‘

Myndasafn (Þorsteinn Eyþórsson)

Viðtöl eftir leik: 

 

Umfjöllun: Kári Viðarsson