Ísland mætir Portúgal í forkeppni Eurobasket 2021 í kvöld. Leikurinn er sá þriðji í þessari forkeppni en Ísland er enn í leit að sigri. Leikurinn verður síðasti landsleikur Jóns Arnórs Stefánssonar og Hlyns Bæringssonar fyrir Íslands hönd en hann hafa ákveðið að leggja landsliðsskónna á hilluna eftir þennan landsleikjaglugga.

Jón Arnór Stefánsson sem einnig hefur hlotið viðurnefnið Geitin mun jarma í hinsta sinn með landsliðinu í kvöld. Leikmaðurinn sem leikið hefur með sterkustu liðum evrópu auk þess að hafa verið á mála hjá NBA liði Dallas Mavericks. Jón er án efa einn allra besti leikmaður sem Ísland hefur alið af sér í þessari fögru íþrótt.

Aðrir leikmenn landsliðsins líta gríðarlega upp til Jóns sem nýtur einstakrar virðingar leikmanna enda mikill leiðtogi. Hefur oftar en ekki stigið upp fyrir liðið á ögurstundu en nú er komið að því að færa öðrum kyndilinn.

Fyrirliði landsliðsins leikur einnig sinn síðasta leik en Hlynur er ímynd íslenska landsliðsins. Leikmaður sem hefur alltaf skilið allt eftir á gólfinu með landsliðinu, barist til síðasta blóðdropa en einnig með risavaxið hjarta. Vinnusemi hans er til eftirbreytni auk þess að hafa marg oft sýnt það að vera frábær körfuboltamaður.

Hlynur Bæringsson mun skilja eftir sig stórt skarð í landsliðinu sem erfitt verður að fylla, innan sem utan vallar.

Að þessu öllu sögðu, þá er nokkuð ljóst að þessir menn eiga skilið alvöru kveðjuleik í kvöld. Nútímahetjur sem hafa barist fyrir okkur á vellinum svo oft áður. Körfuboltaáhugamenn fá frábært tækifæri til að þakka þessum leikmönnum fyrir sitt framlag til leiksins og landsliðsins. Þakklæti ætti að vera efst í huga áhagenda liðsins við þetta tilefni. Því er auðvelt að sýna það í verki í og fjölmenn í Höllina.

Leggjum frá okkur stuðningin við félagsliðin í eina kvöldstund, hættum að rífast um slagsmál milli stuðningsmannasveita og sameinumst um að kveðja þessa leikmenn.

Þetta er lokaútkall, stútfyllum Laugardalshöllina í kvöld!

Enn eru til örfáir miðar á Tix.is.