Í dag mættust Valur og Stjarnan að Hlíðarenda, það verður ekki selt dýrara en það var keypt, Valskonur vorum mun sterkari í dag. Stjarnan átti fátt um svör og spiluðu langt frá sínum besta leik. Stjarnan byrjaði að vísu á að koma sér fjórum stigum yfir í fyrstu tveimur sóknum leiksins, en eftir það tók Valur við foryrstunni og hélt henni til leiksloka. Vals vörnin gerði vel á að halda Stjörnunni í lélegum sóknarleik, Stjarnan tók mikið af erfiðum skotum, og oft á tíðum fyrsta (hálf opna) skotið eða þá skot á loka sekúndum skotklukkunar. Sem meira er, á hinum enda vallarins, voru Valskonur að lesa leikinn vel og spiluðu vel á milli sín, allir leikmenn Vals sem komu inn á, nema einn, settu stig á töfluna.

Tölfræðin segir ekki alltaf alla söguna, en í dag mætti segja að hún geri það. Valskonur unnu alla helstu tölfræði þættina, þær voru með 47% skotnýtingu (54% í tveggja og 30% í þriggja) á móti 32% Stjörnunnar (37% í tveggja og 25% í þriggja). Stjarnan er gott þriggja stiga lið, hafa þær sýnt það og sannað í vetur en þær hittu ekki sínu fyrsta þriggja stiga skoti fyrr en í seinni hálfleik í þessum leik. Valur tók 44 fráköst, sendu 20 stoðsendingar og stálu 11 boltum, virtist allt ganga upp hjá Völsurum í dag.

Þó svo að Valsliðið í heild hafi verið framúrskarandi verður að segjast að Helena hafi verið hetjan þeirra. Hún spilaði frábæra vörn, skilaði sínu í sókninni en helst af öllu sá hún mögulega alltaf opnu liðsfélaga sína á vellinum. Helena endaði leikinn með 12 stoðsendingar af 20 stoðsendingum Vals, auðvitað þarf að hrósa þeim leikmönnum sem skoruðu eftir allar þessar sendingar, en það er magnað að horfa á þessar sendingar frá Helenu.

Þessi sigur Valskvenna í dag var sá tíundi í röð, og deila þær nú öðru til þriðja sæti í deildinni með KR. Keflavík situr enn á toppnum með einn sigur til góða, deildin gæti því varla verið meira spennandi um þessar mundir. Stjarnan er ennþá í bullandi baráttu að reyna að koma sér upp í fjórða sæti en þar situr Snæfell með tveimur fleiri stigum en Stjarnan.

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun, viðtöl / Regína Ösp

 Myndir / Torfi Magnússon

 

Viðtöl: