Stjörnukonur eru komnar í úrslit Geysisbikars kvenna í fyrsta sinn eftir stórsigur á nágrönnum sínum í Breiðabliki í fyrri leik undanúrslita keppninnar, 103-82. Garðbæingar mæta því Val í úrslitaleiknum, en Valskonur unnu Snæfell í síðari leik miðvikudagskvöldsins.

Yfirburðir Stjörnunnar miklir

Það er óhætt að segja að Stjarnan hafi haft tögl og hagldir allan leikinn. Stjarnan komst yfir strax í fyrstu sókn þegar Dani Rodriguez sótti körfu og villu að auki, og eftir það höfðu Garðbæingar forystu það sem eftir lifði leiks. Stjarnan spilaði frábæran liðskörfubolta í fyrri hálfleik og réðu Blikar ekkert við sóknarleik Garðbæinga, þar sem þær Dani Rodriguez og Ragna Margrét Brynjarsdóttir settu niður hvert stigið á fætur öðru. Eftir stórglæsilegan flautuþrist frá Dani leiddu Stjörnukonur með 13 stigum í hálfleik, 38-51.

Blikar byrjuðu þriðja leikhluta ágætlega og komu muninum fljótlega undir tíu stig, áður en Stjörnukonur vöknuðu á ný. Garðbæingar sprungu hreinlega út og settu hverja körfuna á fætur annarri á nágranna sína og var munurinn fljótlega kominn yfir 20 stigin. Eftir þetta var allur vindur úr Blikaliðinu, og Stjarnan sigldi heim öruggum 21 stigs sigri, 103-82.

Lykill

Dani Rodriguez var eins og svo oft áður frábær í liði Stjörnunnar og var einungis einni stoðsendingu frá þrennu, með 33 stig, 12 fráköst og 9 stoðsendingar. Þó að Rodriguez hafi kannski staðið upp úr í liði Garðbæinga kom hins vegar framlag úr öllum áttum, og skoruðu til að mynda fjórir leikmenn yfir 10 stig, auk þess sem Garðbæingar tóku heil 67 fráköst gegn 32 fráköstum Blika.

Framhaldið

Breiðablik er úr leik í Geysisbikarnum þetta árið, á meðan Stjarnan leikur til úrslita í bikarkeppni kvenna í fyrsta sinn í sögu félagsins. Stjörnukonur mæta Val í úrslitaleiknum laugardaginn 16. febrúar klukkan 13:30.