Það verða Stjörnumenn sem leika til úrslita í Geysisbikar karla þetta árið eftir torsóttan 14 stiga sigur á ÍR í undanúrslitum keppninnar. Stjörnumenn, sem hafa farið á kostum undanfarnar vikur, voru sigurstranglegri fyrir leik, en ÍR-ingar sýndu Garðbæingum enga virðingu og héldu í við Stjörnuna og gott betur nánast allan leikinn. Þegar í fjórða leikhluta var komið virtust ÍR-ingar hins vegar búnir á því eftir að hafa gefið allt í leikinn, og Garðbæingar gengu á lagið. Niðurstaðan 87-73 sigur Stjörnunnar.

Barátta

Stjörnumenn byrjuðu leikinn af miklum krafti og voru komnir með tólf stiga forystu, 20-8, um miðjan fyrsta leikhluta. ÍR-ingar unnu sig hins vegar hægt og bítandi inn í leikinn með góðri vörn og góðum körfum, aðallega frá Kevin Capers og Sigurði Þorsteinssyni. Stjörnumenn leiddu eftir fyrsta leikhluta, 24-21, en í öðrum leikhluta sýndu ÍR-ingar heldur betur klærnar. Varnarleikur liðsins var frábær á þessum tímapunkti og virtust engin bönd halda Kevin Capers í sókn liðsins, og höfðu Breiðhyltingar komið sér í sjö stiga forystu um miðjan leikhlutann, 33-40. Stjörnumenn náðu hins vegar góðu áhlaupi í lok leikhlutans og hafði ÍR eins stigs forystu, 41-42 í hálfleik.

Þriðji leikhluti var áfram jafn og var fátt ef nokkuð sem skildi liðin að. Stjörnumenn höfðu tveggja stiga forystu fyrir lokafjórðunginn, 60-58, og spennan í Höllinni áþreifanleg. Í fjórða leikhluta náðu Stjörnumenn fljótlega sex stiga forystu, og eftir það virtust ÍR-ingar einfaldlega springa á limminu, sem Stjörnumenn nýttu sér. Stjörnumenn skoruðu hvert stigið á fætur öðru gegn þreyttum ÍR-ingum og tryggðu sér loks sæti í úrslitum með fjórtán stiga sigri, 87-73.

Lykill

Niðurstaðan gefur ef til vill ekki alveg rétta mynd af leiknum fyrstu 35 mínúturnar, en Stjörnumenn gengu á lagið þegar lykilmenn ÍR voru augljóslega orðnir þreyttir og gengu frá leiknum fagmannlega. Stjörnumenn fengu auk þess framlag frá öllum sínum lykilmönnum, á meðan Capers, Sigurður Gunnar og Matthías Orri Sigurðarson sáu alfarið um stigaskor ÍR-inga, sem fengu ekki mikið framlag í sókn frá öðrum mönnum. Slíkt er einfaldlega ekki líklegt til árangurs gegn jafnsterku liði og Stjörnunni.

Bestur

Kevin Capers átti stórleik í liði ÍR með 33 stig, en verulega dró af honum í lokafjórðungnum. Hjá Stjörnunni voru fjórir leikmenn jafnbestir, en Hlynur Bæringsson og Brandon Rozzell leiddu stigaskor liðsins með 22 stig hvor, á meðan Ægir Steinarsson skoraði 19 og gaf 8 stoðsendingar, og Antti Kanervo skoraði 15.

Framhaldið

ÍR er úr leik í Geysisbikar karla. Stjarnan leikur hins vegar til úrslita í fjórða sinn, en í öll þrjú skiptin sem liðið hefur leikið til úrslita hefur bikarinn endað hjá Garðbæingum, árin 2009, 2013 og 2015. Stjarnan mætir Njarðvík í úrslitum á laugardaginn kemur klukkan 16:30 og verða Garðbæingar væntanlega allan daginn í Höllinni, enda leikur kvennalið félagsins til úrslita gegn Val fyrr um daginn, eða klukkan 13:30.