Stjarnan og Njarðvík áttust við í Geysisbikarúrslitum karla í dag í þéttpakkaðri höll, en um 2100 manns mættu til að styðja liðin áfram. Bæði lið unnu nokkuð sannfærandi annarsvegar ÍR og KR í undanúrslitum bikarsins.

Spennan í höllinni varð áþreifanleg um leið og uppkastinu var lokið. Mikil harka var strax í leiknum og liðin skiptust á því að skora. Um miðjan fyrsta leikhluta komst Stjarnan tveim sóknum yfir og þegar rúmmlega2 mínútur voru eftir var Stjarnan með 7 stiga forystu. Njarðvíkingar náðu lítið að kroppa það niður. Staðan eftir fyrsta leikhluta 23 – 18 Stjörnunni í vil.

Stjarnan hélt Njarðvíkingum frá sér með tveggja til þriggja sókna mun  fyrstu mínúturnar. Einar Árni fékk á sig tæknivillu eftir um tvær og hálfa mínútu og í kjölfarið komst Stjarnan 10 stigum yfir. Stjarnan hélt Njarðvíkingum frá sér og vörðu þann mun út leikhlutann. Staðan í hálfleik 41 – 32 Stjörnunni í vil.

Eric Katenda fékk þrjár villur á rétt rúmum 4 mínútum og spilaði því lítið fyrir Njarðvíkinga. Hlynur Bæringsson 7 stiga, 9 fráköst og Brandon Rozzell 15 stig fóru fyrir Stjörnumönnum í fyrri hálfleik. Hjá Njarðvíkingum var Mario Matasovic fersastur og setti 13 stig.

Njarðvíkingar byrjuðu þriðja leikhluta betur og þegar um 4 mínútur voru liðnar voru þeir búnir að koma forystu Stjörnunnar niður í 3 stig. Njarðvíkingar komust ekki nær en  Eric Katenda kom aftur inn á völlinn og tókst að klára leikhlutann án þess að fá fleiri villur og setti 10 stig. Staðan eftir þriðja leikhluta 60 – 57 Stjörnunni í vil.

Stjarnan hélt fast í forystuna fyrstu mínútur fjórða leikhluta og gáfu Njarðvíkingum aldrei færi á að komast yfir. Þegar rúmlega 4 mínútur voru eftir af leiknum tóku Njarðvíkingar leikhlé í stöðunni 73 – 65. Stjarnan spilaði stórkostlega næstu mínútur, tóku langar sóknir og vörðust mjög vel.  Frábær og sannfærandi sigur Stjörnunnar sem tryggðu sér sinn þriðja bikarmeistaratitil. Lokatölur 84 – 68.

Byrjunarlið:

Stjarnan: Hlynur Elías Bæringsson, Ægir Þór Steinarsson, Antti Kanervo, Tómas Þórður Hilmarsson og Brandon Rozzell.

Njarðvík: Elvar Már Friðriksson, Jeb Ivey, Ólafur Helgi Jónsson, Maciek Baginski og Mario Matasovic.

Þáttaskil:

Stjarnan mætti tilbúnari til leiks og unnu fyrstu tvo leikhlutanna. Njarðvíkingar sóttu í sig veðrið í þriðja leikhluta en Stjörnumenn voru staðráðnir í að klára þetta og voru mjög sannfærandi í fjórða leikhluta.

Tölfræðin lýgur ekki:

Stjarnan hitti betur bæði í tvistum og þristum og tóku fleiri fráköst en Njarðvíkingar, það er ágætis uppskrift af góðum sigri.

Hetjan:

Mario Matasovic átti fínan leik fyrir Njarðvíkinga. Hjá Stjörnunni voru Antti Kanervo og Ægir Þór Steinarsson góðir. Brandon Rozzell var frábær og skilaði 30 stigum. Hlynur Elías Bæringsson átti einnig stórleik og var með 13 stig og 14 fráköst.

Kjarninn:

Mario Matasovic var eini leikmaður Njarðvíkinga sem skilaði frammistöðu sem verðskuldar úrslitaleik í bikarnum. Stjarnan var hreint frábær í leiknum, þeir spiluðu grimma vörn og náðu að loka á helstu leikmenn Njarðvíkinga og spiluðu góðan sóknaleik þar sem margir lögðu í púkk. Verðskuldaður sigur Stjörnunnar!

Myndasafn: Bjarni Antonsson