Stjarnan komst í dag í úrslitaleik Geysisbikarsins er liðið vann öruggan sigur á Breiðablik í undanúrslitaleiknum. Leikurinn var í nokkru jafnvægi framan af en segja má að mögnuð flautukarfa Danielle Rodriquez fyrir hálfleikinn hafi gert út um leikinn. Breiðablik sá ekki til sólar eftir það og 82-103 sigur Stjörnunnar staðreynd.

Fjöldi tækifæra Stjörnunnar

Í hverri sókn Stjörnunnar fékk liðið fjölda tækifæra til að enda með körfu, liðið fékk mikið af sóknarfráköstum og lausir boltar enduðu í þeirra höndum. Stjarnan var með mun fleiri skot í leiknum og einfaldlega virtust ákveðnari í að sækja þennan sigur.

Ekkert lið skorað fleiri stig í undanúrslitum í 10 ár

Stjarnan náði 103 stigum í dag en segja má að slakur varnarleikur Blika eigi stóra sök í máli. Breiðablik reyndi ýmsar tilraunir í varnarleiknum en  ekkert virkaði. Liðið gaf mikið af opnum skotum og sóknarfráköst. Stjarnan gerði vel að  nýta sér það. Síðast þegar lið setti yfir 100 stig í undanúrslitum var árið 2009 þegar KR vann Skallagrím 109-49.

Ótrúleg Dani

Danielle Rodriquez átti enn einn frábæra leikinn fyrir Stjörnuna. Hún var einni stoðsendingu frá þrefaldri tvennu og var með 33 stig. Við það bætti hún 12 fráköstum og 9 stoðsendingum. Varðist einnig gegn Sönju Orazovic besta leikmanni Blika og var allt í öllu. Einnig er vert að taka fram frammistöðu Bríetar Sifjar í leiknum en hún endaði með 21 stig, þar af fimm þriggja stiga körfur.

Stjarnan í úrslit í fyrsta sinn

Þetta er í fyrsta sinn í sögu meistaraflokks kvenna hjá Stjörnunni sem liðið kemst í úrslitaleik bikarkeppninnar. Mikil uppbygging hefur verið síðustu ár í kvennakörfubolta hjá Stjörnunni og er þetta í risa skref fyrir félagið að ná. Nokkrir leikmenn liðsins þekkja þetta og er því liðið ekki fullkomlega reynslulaust. Eins og Danielle sagði í viðtal við Körfuna fyrir leikinn þá er þetta mikilvægt fyrir körfuboltann í Garðabæ og það svo sannarlega staðan.

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Bára Dröfn)

Viðtöl (Væntanleg)