Eftir tvo tapleiki í röð mættu Þórsarar vel stemmdir til leiks gegn Selfyssingum í leik sem fram fór í íþróttahöllinni í kvöld. Þórsliðið byrjaði leikinn með látum og voru um miðja leikhlutann komnir í 16-2 og 20-6 áður en gestirnir náðu að rétta ögn sinn hlut. Þór vann leikhlutann 26-17.

Í öðrum leikhlutanum náði Þór mest 14 stiga forskoti 34-20 um miðjan leikhlutann en þá gleymdu menn sér í gleðinni og gestirnir skoruðu 2-12 og allt í einu var munurinn komin niður í 4 stig 36-32. Við þetta vöknuðu heimamenn og svöruðu þessu með góðu áhlaupi 20-8 og leiddu því með 16 stigum í hálfleik 56-40.

Í þriðja leikhluta fór lítið fyrir varnarleik hjá Þór og það nýttu gestirnir sér og tóku að saxa á forskot Þór jafnt og þétt og unnu leikhlutann með 12 stigum 19-31 og munurinn aðeins 4 stig þegar lokakaflinn hófst 75-71. Þórsarar misstu Damir af velli í þriðja leikhlutanum eftir að hann hafði snúið sig á ökkla en þá var kappinn búinn að skora 22 stig. Í fjórða leikhluta þéttu svo Þórsarar raðirnar og hreinlega skelltu í lás og útkoman var sú að gestirnir skoruðu aðeins 7 stig í leikhlutanum gegn 17 Þórs. Fór svo að Þór hafði 14 stiga sigur sem verður að teljast fullkomlega verðskuldaður.

Larry Thomas var stigahæstur Þórs með 24 stig 9 fráköst og 7 stoðsendingar. Damir Mijic 22 stig, Júlíus Orri 14, Kristján Pétur 12, Bjarni Rúnar 6 og þeir Ingvi Rafn og Ragnar Ágústsson 5 stig hvor og Pálmi Geir 4.

Hjá Selfossi var Chaed Brandon með 19 stig, Marvin Smith jr. 16, Snjólfur Marel 12, Ari og Björn Ásgeir 10 stig hvor, Svavar Ingi 8 og Hlynur 3. Þór er sem fyrr á toppi deildarinnar með 26 stig eftir 16 leiki en Höttur og Fjölnir eru í 2.-3. sætinu með 22 stig eftir 15 leiki.

Í næstu umferð sækir Þór lið Sindra heim á Höfn í Hornafirði og er leikurinn settur á 18. febrúar klukkan 20:00.

Hér að neðan eru viðtal við þá Júlíus Orra og Ragnar Ágústsson annars vegar og svo við Larry Thomas.

Tölfræði leiksins

Larry

Júlíus og Ragnar

Umfjöllun, myndir og viðtöl: Palli Jóh – Thorsport.is