Umfjöllun: ÍR sigur í Síkinu

Marín Lind sækir að körfu ÍR, Nína Jenný til varnar

ÍR stelpur höfðu sigur á heimastúlkum í Síkinu í hörkuleik í 1. deild kvenna á Sauðárkróki í dag.

Tindastólsstelpur komu ákveðnar til leiks í síðasta heimaleik tímabilsins og voru skrefi á undan ÍR-stelpum í fyrsta leikhlutanum eftir smá bras í byrjun. Gott flæði var í sóknarleiknum og skotin voru að detta. Einnig virtust ÍR stelpur ekki alveg tilbúnar og var þar hugsanlega um vanmat að ræða en þær höfðu unnið fyrri leik liðanna stórt í Breiðholtinu. Stólastelpur gengu á lagið og leiddu 22-16 eftir fyrsta leikhluta eftir flottan þrist frá Valdísi Ósk.

Baráttan hélt áfram í 2. leikhluta og Tindastóll jók við forystuna. Gott sjálfstraust var í leikmönnum liðsins og skotin gengu upp. Eva Rún Dagsdóttir var að leika frábæra vörn gegn leikstjórnanda ÍR og það hafði mikið að segja í því að Tindastóll náði að bæta við forystuna og leiddu með 12 stigum í hálfleik, 40-28.

Tindastóll náði að halda forystunni í þetta 6-10 stigum mestallan 3. leikhluta en gestirnir skoruðu síðustu 4 stig leikhlutans og munurinn í lokin aðeins 5 stig. Hlutirnir virtust farnir að snúast aðeins með gestunum, skotin þeirra skoppuðu á hringnum en fóru niður á meðan allt virtist aðeins erfiðara hjá heimastúlkum í Tindastól. ÍR-ingar héldu svo áhlaupi sínu áfram í fjórða leikhluta og voru komnar yfir þegar þrjár mínútur voru liðnar 53-57 eftir 13-0 sprett. Þær héldu svo þessari forystu til leiksloka með skynsamlegri spilamennsku, voru að koma boltanum vel inn til sinna stóru manna sem Stólastúlkur áttu erfitt með að verjast. Tindastóll hélt sér alltaaf í seilingarfjarlægð samt en segja má að rothöggið hafi komið þegar Hrafnhildur Magnúsdóttir setti þrist fyrir ÍR og kom þeim í 6 stiga forystu þegar 1 og hálf mínúta var eftir. Síðustu skot Stólanna geiguðu öll og gestirnir sigldu sigrinum heim 65-74.

Eins og áður í vetur var það frákastabaráttan sem var að reynast heimamönnum erfið og gestirnir tóku 58 fráköst og þar af 24 sóknarfráköst, gegn 38 hjá Tindastól. Þetta þýddi að ÍR náði að skjóta oftar á körfuna en þeir tóku samtals 84 skot í leiknum gegn 64 skotum Tindastól sem varð til þess að betri hittni heimastúlkna í leiknum var til lítils.

Sigurbjörg Rós (10 stig, 13 fráköst) og Nína Jenný (16stig, 9 fráköst) áttu flottan leik hjá gestunum auk leikstjórnendanna, Hrafnhildar og Arndísar Þóru sem sameinuðu 22 stig og 9 stoðsendingar. Hjá heimastelpum var það Marín Lind sem fór fyrir með 23 stig og Tess setti 18 stig og tók 9 fráköst.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Viðtal: Rakel Rós 

 

Umfjöllun, myndir, viðtal / Hjalti Árna