Stjörnukonur tóku í gær á móti Keflavík í Domino’s deild kvenna. Fyrir leik voru Keflvíkingar í efsta sæti deildarinnar og í harðri baráttu um deildarmeistaratitilinn, en Stjörnukonur sátu í því fimmta og þ.a.l. í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni.

Það var ljóst frá upphafi leiks að Stjörnukonur ætluðu að gefa Keflvíkingum leik og gott betur. Stjarnan barðist um hvern einasta bolta og var ákefð liðsins til fyrirmyndar, á meðan Keflvíkingum virtist einfaldlega ekki líða vel í sínum aðgerðum. Fimm stiga munur var á liðunum í hálfleik, 38-33, en strax í þriðja leikhluta var ljóst hvorum megin sigurinn myndi enda. Stjörnukonur gjörsamlega slökktu á gestunum og virtust geta skorað að vild á hinum enda vallarins. Fór svo að lokum að Stjarnan vann ansi öruggan 22 stiga sigur á toppliði Keflavíkur, 80-58.

Lykillinn

Vörn Garðbæinga var feiknarsterk allan leikinn og sérstaklega í síðari hálfleik, en Keflavík skoraði einungis 25 stig allan síðari hálfleikinn. Munaði þar sérstaklega um vörnina sem Stjarnan spilaði gagnvart Brittany Dinkins, en Auður Íris Ólafsdóttir og Veronika Dzhikova fóru þar fremstar í flokki. Fór svo að Dinkins skoraði einungis 12 stig í leiknum, sem er fjarri meðalstigaskori hennar. Sóknarlega náðu heimakonur svo að galopna Keflavíkurvörnina trekk í trekk, og virtust gestirnir einfaldlega ekki eiga nein svör við leik Stjörnunnar.

Best

Þó svo Dani Rodriguez hafi verið stigahæst í liði Stjörnunnar sem áður, þá voru það Auður Íris og Veronika sem settu tóninn í varnarleik Garðbæinga. Frábær leikur hjá öllum þremur.

Framhaldið

Sigur Stjörnunnar, sem og önnur úrslit gærkvöldsins gera það að verkum að baráttan um laust sæti í úrslitakeppninni harðnar enn frekar. Keflavíkurkonur misstu toppsætið í hendur Vals, á meðan Stjörnukonur eru enn í harðri baráttu við Snæfell um sæti í úrslitakeppninni. Næst spila Garðbæingar á heimavelli gegn KR 6. mars næstkomandi, en á sama tíma tekur Keflavík á móti Snæfelli.