Stjörnukonur tóku á móti ríkjandi Íslandsmeisturum Hauka í Mathús Garðabæjarhöllinni í gær, miðvikudag. Fyrir leik var Stjarnan í fimmta sæti deildarinnar, aðeins tveimur stigum á eftir Snæfelli sem sátu í því fjórða. Haukakonur voru hins vegar í næstneðsta sæti deildarinnar.

Stjörnukonur byrjuðu leikinn betur og höfðu 7 stiga forystu eftir fyrsta leikhluta, 23-16. Gestirnir voru hins vegar ekki slegnar út af laginu og komu sterkar inn í annan fjórðung. Hörkuvörn lagði grunninn að því að Haukar unnu annan fjórðunginn með 8 stigum, 15-23, og leiddu gestirnir því með einu stigi í hálfleik, 38-39.

Í seinni hálfleik virtust Stjörnukonur ætla að slíta sig frá Hafnfirðingum í þriðja leikhluta, en alltaf svöruðu Haukar með góðu áhlaupi. Stjörnukonur höfðu átta stiga forskot fyrir lokafjórðunginn, 63-55, en Haukar voru ekki lengi að brúa bilið og komust stigi yfir þegar um fimm mínútur lifðu af leiknum. Síðustu fimm mínúturnar voru æsispennandi og lítið sem skildi liðin að. Stjarnan hafði hins vegar tveggja stiga forystu þegar um 10 sekúndur voru eftir af leiknum, þegar Haukar sendu Dani Rodriguez á vítalínuna. Dani setti bæði vítin niður, sem innsiglaði fjögurra stiga sigur Stjörnunnar, 79-75.

Lykillinn

Það var ekki margt sem skildi liðin að í gærkvöldi, og hefði sigurinn auðveldlega getað fallið Haukum í vil. Stjörnukonur náðu hins vegar að stoppa gestina á lykilaugnablikum í lok leiks, t.d. í stöðunni 77-75, skömmu áður en Dani innsiglaði sigur Garðbæinga á vítalínunni. Að lokum var það sennilega það sem skildi liðin að.

Hetjan

Dani Rodriguez var best í liði Stjörnunnar og stýrði leiknum frábærlega þegar mest á reyndi, auk þess sem hún innsiglaði sigur Garðbæinga með tveimur vítum í lok leiks. Dani lauk leik með 27 stig, 13 fráköst og sjö stoðsendingar.

Framhaldið

Stjarnan viðheldur pressu á liðunum fyrir ofan þær, en enn munar einungis tveimur stigum á Stjörnunni og Snæfelli sem situr í fjórða sæti deildarinnar, síðasta sætinu sem gefur þátttökurétt í úrslitakeppninni. Nú fara Stjörnukonur inn í afar krefjandi prógram, en næst mæta þær Val á útivelli í deildinni laugardaginn 9. febrúar, og mæta því næst Blikum í undanúrslitum Geysisbikars KKÍ. Haukar taka á sama tíma á móti Snæfelli.