Stjörnumenn tóku á móti Val í 17. umferð Domino’s deildar karla í gærkvöldi, sunnudag. Fyrir leikinn voru heimamenn á blússandi siglingu með átta sigurleiki í röð, og sátu Garðbæingar í þriðja sæti deildarinnar fyrir leik. Valsarar voru hins vegar í 10. sæti deildarinnar með 10 stig.

Stjörnumenn voru sterkari frá fyrstu mínútu og voru fljótlega komnir með 11 stiga forystu þegar Ágúst Björgvinsson tók leikhlé. Eftir leikhléð náðu gestirnir að laga stöðuna aðeins og munaði 5 stigum á liðunum eftir fyrsta fjórðung, 21-16. Jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta og munaði sjö stigum á liðunum í hálfleik, 42-35.

Þar skildi hins vegar á milli. Stjörnumenn settu hreinlega í fluggír í þriðja leikhluta og skoruðu hverja körfuna á fætur annarri, á meðan Valsarar fengu varla að horfa á körfuna, hvað þá skora í hana gegn ógurlegri vörn Garðbæinga. Svo fór að Stjörnumenn skoruðu fleiri stig í þriðja leikhluta heldur en allan fyrri hálfleikinn, en þriðji leikhluti fór 44-18 heimamönnum í vil. Eftir þetta var eftirleikurinn mjög auðveldur fyrir Garðbæinga og eftir ansi tíðindalítinn lokafjórðung lauk leiknum með 36 stiga stórsigri Stjörnunnar, 107-71.

Lykillinn

Stjörnumenn eru afskaplega illviðráðanlegir þessa dagana, en í þriðja leikhluta sýndi liðið allar sínar bestu hliðar, bæði í vörn og sókn. Brandon Rozzell og Antti Kanervo settu hvern þristinn á fætur öðrum í grillið á Völsurum, sem höfðu engin svör gegn Garðbæingum. Varnarleikur heimamanna var að sama skapi afskaplega grimmur og gáfu þeir Völsurum fá færi í seinni hálfleik.

Hetjan

Brandon Rozzell virðist falla óaðfinnanlega að leik Garðbæinga, og bera úrslitin frá komu hans þess vitni. Rozzell skoraði 33 stig í leiknum, þar af 20 stig í þriðja leikhluta. Rozzell virtist einfaldlega vera óstöðvandi í gær og virtist hann geta stokkið upp og hent boltanum ofan í körfuna hvar sem er á vellinum. Stórkostlegur leikmaður.

Framhaldið

Eftir sigur gærdagsins eru Stjörnumenn komnir í annað sæti deildarinnar, og eru nú jafnir Njarðvíkingum sem eiga þó leik til góða. Framundan er hins vegar afar krefjandi prógram hjá Garðbæingum, en liðið leikur næst gegn Tindastóli á Sauðárkróki föstudaginn 8. febrúar, áður en liðið tekur þátt í úrslitahelgi bikarkeppni KKÍ. Valsarar eiga næst stórleik gegn ÍR í Origo-höllinni 8. febrúar, en með sigri galopna Valsarar baráttuna um 8. sætið.