Haukar eru í mikilli baráttu um sæti í úrslitakeppnina í Dominos deild karla þessi misserin en liðið átti frábæra leiki fyrir bikar- og landsleikjahléið. Liðið hefur hinsvegar ákveðið að leyfa Ori Garmizo að yfirgefa liðið. Þetta staðfesti Ívar Ásgrímsson þjálfari Hauka í samtali við Körfuna.

Ori Garmizo kom til Hauka um áramótin en hann er með 6,3 stig og 6,3 fráköst að meðaltali á nærri tuttugu mínútum. Samkvæmt Ívari var hann fenginn til liðsins til að leysa af vegna meiðslavandræða liðsins.

Hann staðfestir þá einnig að þeir Kristinn Marínósson og Kristján Leifur Sverrisson séu klárir og verði með í fyrsta leik eftir landsleikjahléð. Kristinn hefur lítið verið með eftir áramót en Kristján Leifur hefur einungis leikið fimm leiki á tímabilinu.