Fyrir helgi tók aga- og úrskurðarnefnd KKÍ fyrir ákæru Þórs Ak vegna framkvæmdar á leik Fjölnis og Þórs Ak í undanúrslitum Geysisbikars drengjaflokks. Gerðar voru athugasemdir við ritaraborð leiksins en staðan á töflunni var röng eftir fjögurra mínútna leik í þriðja leikhluta.

Þór Ak krafðist þess að leikurinn yrði úrskurðaður ógildur og endurtekinn ásamt því að Fjölnir greiði allan ferðakostnað við hinn endurtekna leik. Atvikum málsins var þannig lýst af Þór Ak: “Í stöðunni 50-48 fyrir Fjölni þegar 6:09 mínútur voru eftir af þriðja leikhluta
var brotið á leikmanni nr. 34 hjá Þór í þriggja stiga skoti og hann fékk þrjú vítaskot.
Leikmaðurinn hitti úr öllum skotunum og staðan þar með orðin 51-50 Þór í vil. Fjölni
tókst ekki að skora í næstu sókn og Þórsliðið fór í sókn að nýju og leikmaður nr. 1
skoraði úr lay-upi. Þar með var staðan orðin 53-50 Þór í vil. Í næstu sókn Fjölnis
gerði starfsmaður á ritaraborði hins vegar þau mistök að draga 4 stig af Þór og staðan
á stigatöflunni var þá skyndilega orðin 50-49 fyrir Fjölni.”

Leiknum lauk með 83-78 sigri Fjölnis en í úrskurðinum segir að ljóst sé að síðustu andartök leiksins hefðu þróast öðruvísi ef staðan hefði verið rétt á töflunni. Í niðurstöðu nefndarinnar segir svo: “Með vísan til þess, og þrátt fyrir að um mjög alvarleg mistök sé að ræða, er það mat aga- og úrskurðarnefnd að ekki hafi verið  sýnt fram á, án nokkurs vafa, að mistökin hafi með beinum hætti leitt til rangra úrslita. Er því kröfum kæranda í máli þessu hafnað.”

Úrskurður kom þann 12. febrúar síðastliðinn, nokkrum dögum fyrir bikarhelgina þar sem Fjölnir fór í úrslitaleikinn og tapaði gegn Stjörnunni í úrslitum drengjaflokks. Á heimasíðu Þórs er stiklað á stóru í málinu og því velt upp hvort Akureyringar hafi verið rændir sæti í úrslitaleiknum vegna framkvæmdar leiksins.

Ljóst er að mikil óánægja er innan herbúða Þórs vegna málsins en félagið er einnig ósátt með hversu lítinn tíma það fékk til að leggja fram kæruna. Auk þess hversu seint niðurstaðan lág fyrir og hafi því í raun ekki verið hægt að áfrýja niðurstöðunni.

Úrskurð Aga-og úrskurðar má finna í heild sinni hér.