Katenda fór mikinn í stórsigri gegn Grindavík

Ljónin úr Njarðvík rifu Grindvíkinga í sig í Domino´s-deild karla í kvöld. Lokatölur 94-65 í Ljónagryfjunni. Allt stefndi í æsispennandi slag eftir fjörugan fyrsta leikhluta þar sem Njarðvíkingar leiddu 28-25 en í öðrum leikhluta fóru heimamenn á kostum og lögðu grunninn að stórum og sterkum sigri.

Maciej Baginski var stigahæstur í Njarðvíkurliðinu í kvöld, fór vel af stað og skellti niður þremur þristum í fyrsta leikhluta og lauk leik með 6/8 í þristum og var stigahæstur Njarðvíkinga með 23 stig. Eric Katenda kom svo með mikinn hávaða af bekknum en hann var framlagshæstur í kvöld með 35 punkta þar sem hann setti 17 stig, tók 15 fráköst og var með 7 varin skot!

Njarðvíkingar leiddu 56-34 í hálfleik en í þriðja leikhluta kviknaði loks á Lewis Clinch Jr. eftir rólegheit í fyrri hálfleik en Clinch skoraði í öllum regnbogans litum og Grindavík vann leikhlutann 12-21 og staðan fyrir lokasprettinn 68-55. Þarna var möguleiki á spennandi lokasprett en heimamenn gáfu í að nýju og unnu fjórða leikhluta 26-10. Alger yfirburðasigur 94-65.

Varnarleikur Njarðvíkinga var magnaður í kvöld. Þéttir fyrir og spiluðu fast. Grindvíkingar að sama skapi ekki tilbúnir í svona slag og voru hreinlega skildir eftir. Eftir sigurinn í kvöld er Njarðvík með 30 stig á toppi deildarinnar en Grindvíkingar í 7. sæti með 16 stig.

Nú tekur við nokkuð myndarlegt hlé á deildarkeppninni þar sem bikarúrslit eru framundan en þar mæta Njarðvíkingar-KR í Laugardaslhöll þann 14. febrúar næstkomandi. Næstu deildarleikir liðanna eru í marsmánuði en þá fær Grindavík heimsókn frá Íslandsmeisturum KR þann 3. mars og Njarðvík mætir Stjörnunni í Mathús Garðabæjar höllinni 4. mars.

Tölfræði leiksins
Myndasafn