Leikurinn var mjög sveiflukenndur, KR-ingar byrjuðu mjög sterkt og náðu góðri forystu í fyrsta leikhluta, staðan 12-21 þegar ein og hálf mínúta voru eftir. Heimamenn skoruðu síðustu 6 stig leikhlutans og staðan 18-21. Tindastóll setti svo í fluggírinn og voru komnir með 10 stiga forystu eftir tvær og hálfa mínútu í öðrum leikhluta, 31-21. Vörnin var áköf og menn farnir að setja niður skotin fyrir utan. KR kom til baka og minnkuðu muninn í 4 stig en heimamenn tóku aftur á sprett og leiddu með 15 stigum í hálfleik 51-36.

Tindastólsmenn komu ákveðnir til leiks í 3ja leikhluta og náðu mest 21 stigs forystu, staðan 63-42 eftir þrist frá Viðari. Svo var eins og leikmenn Tindastóls slökuðu á, um miðjan 3ja leikhluta, og KR-ingar byrjuðu að naga forystuna niður með sterkum varnarleik og öguðum sóknarleik. Heimamenn skoruðu ekki stig í næstum 6 mínútur í fjórða leikhluta og KR gekk á lagið. 4 stig frá Danero Thomas og víti frá Pétri gerðu þó 5 stiga forystu þegar 51 sekúnda lifði leiks en íleggja frá Emil Barja og þristur frá Boyd þegar 3 sekúndur voru eftir tryggðu framlengingu.

Í framlengingunni voru KR alltaf skrefi á undan en þegar Pétur Rúnar varði skot frá Jóni Arnóri um miðja framlenginguna og staðan jöfn virtust heimamenn ætla að knýja fram sigur, með frábæra stuðningsmenn sína sér að baki. En mönnum voru áfram mislagðar hendur í sókninni og gamli jaxlinn Helgi Már setti gríðarstóran þrist þegar 46 sekúndur lifðu leiks. Pétur Rúnar setti þrist þegar 14 sekúndur voru eftir og Tindastólsmenn sendu Emil Barja á línuna. Hann klikkaði ekki, setti bæði skotin niður og ennþá 12 sekúndur eftir. Nýr leikmaður Stólanna æddi upp að körfunni og setti niður sniðskot þegar 5 sekúndur voru eftir. Stólar vildu villu en fengu ekki og KR í kjörstöðu með 1 stigs forystu og með boltann. Jón Arnór fékk boltann úr innkastinu og Stólar brutu strax á honum en hann var ískaldur á línunni, setti bæði vítin og kom muninum aftur í 3 stig. Michael Ojo reyndi erfitt skot á lokasekúndunni en það var víðsfjarri og KR sigur staðreynd.

Það var ekki mikið sem skildi liðin að í tölfræðinni en Tindastóll tapaði boltanum alls 20 sinnum í leiknum og hlýtur það að teljast slakt og merki um kæruleysi. King var stigahæstur með 24 stig og reif að auki niður 12 fráköst. Michael Ojo kom sterkur inn í liðið og skilaði 17 stigum og Pétur Rúnar var með 14. Hjá KR-ingum fór Jón Arnór hamförum með 34 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar. Boyd var líka gríðarsterkur með tröllatvennu, 26 stig og 18 fráköst. Lítið fór fyrir öðrum hjá gestunum en í svona jöfnum leik þá skiptir allt máli, t.a.m. 4 stolnir boltar og 2 þristar hjá Orra Hilmarssyni.

Eftir frábæran sigur í Njarðvík í síðustu umferð fóru heimamenn illa að ráði sínu í kvöld, höfðu leikinn í hendi sér en hættu allt of snemma að keyra á gestina og því fór sem fór. Spurning hvort eitthvað þarf að taka til í hausnum á mönnum eftir slíka frammistöðu og áhyggjuefni fyrir Tindastól, ekki síst þegar litið er til þess að þetta hefur gerst áður. Menn ættu að læra af reynslunni.

Tölfræði leiks

Myndasafn 

 

Umfjöllun, myndir og viðtal / Hjalti Árna

 

Helgi Rafn eftir leik: