Í kvöld kláraðist 16. umferð Domino’s deild kvenna með mikilli spennu. Lið KR og Stjörnunnar mættust í Frostaskjóli þar sem Stjarnan hafði betur eftir famlengdan leik. Umræddur leikur var mjög skemmtilegur að horfa á, Stjarnan var mest megnið einu skrefi á undan á öllum tímum en KR kom sér alltaf aftur í leikinn. Mikil barátta var á vellinum og leikmenn tilbúnir að leggja allt á sig fyrir sitt lið. Stjarnan virtist vera með leikinn í höndum sér allt fram að fjórða leikhluta þegar KR liðið, sem áhorfendur þekkja, mættu sterkar inn á völlinn eftir góða ræðu frá sínum þjálfara.

Stjarnan átti engin svör við þessu nýja KR liði sem mætti til leiks og var hvað eftir annað að lenda í vandræðum að koma boltanum ofan í hringinn. KR gerðu vel og notfærðu sér það tækifæri til þess að jafna leikinn. Síðustu sekúndur leiksins einkenndust af brotum og tveimur skotum til þess að stoppa tímann. Stjarnan átti loka sóknina, þær spiluðu sig í gegnum vörn KR og gátu klárað leikinn, aftur á móti fóru þær illa að ráði sínu og klúðruðu sniðskotinu og þar af leiðandi framlengt.

Upphafs mínúturnar í framlengingunni voru, líkt og þær síðustu í fjórða leikhluta, liðin skiptust á að skora. Leikurinn var hraður, mikið var um stolna bolta og fráköst. Nýliði Stjörnunnar, Veronika Dzhikova, var hreint út sagt frábær á þessum loka mínútum, en hún var með 8 af 11 stigum Stjörnunnar í framlengingunni.

Tölfræði leiksins er nokkuð jöfn, munar aðeins þremur prósentum á skotnýtingu liðanna, Stjarnan tapar 8 fleiri boltum en KR og KR-ingar senda einnig tveimur fleiri stoðsendingum en Stjarnan. Helsti munur liðanna eru fráköstin, Stjarnar rífur 57 fráköst á móti 36, þar af 40 varnarfráköst, og það sem meira er þá tekur KR aðeins 7 sóknarfráköst. Ef vitna á í einn helsta þjálfara landsins þá er liðið sem tekur fleiri fráköst að fara að vinna leikinn, sem sannreyndist í kvöld.

Hetja leiksins verður að vera Danielle sem endaði leikinn með 27 stig, 15 fráköst og 13 stoðsendingar. Hún gerir alla í kringum sig betri, sýnir gott fordæmi í baráttu og leikgleði. Það er magnað að horfa á þennan leikmann spila, hún er stórkostlega og hefur gífurlegan leikskilning. Verður samt að undirstrika að hetja framlengingannar hafi verið Veronika, hún spilaði frábæra vörn ásamt því að stíga upp fyrir sitt lið og gerði það sem þurfti til þess að klára leikinn.

Með hverjum leik sem líður er óhætt að segja að baráttan um úrslitakeppnina verði fram á síðasta deildarleik. Stjarnan situr eins og er í 5. sæti í deildinni og verður spennandi að sjá hvort að þær komi sér upp um sæti þegar nær dregur. KR situr hins vegar á toppnum með Keflavík, ef KR-ingar spila fleiri leiki eins og þær spiluðu 4. leikhlutann í kvöld er óhætt að segja að þær séu á beinni leið í úrslitakeppnina.

Tölfræði leiksins

Viðtöl eftir leik:

Umfjöllun og viðtöl: Regína Ösp Guðmundsdóttir