Baráttan um sæti í úrslitakeppni Domino’s deildar kvenna var í algleymingi þegar Stjarnan tók á móti Snæfelli í Mathús Garðabæjar höllinni miðvikudaginn 23. janúar. Fyrir leik voru Stjörnukonur í fimmta sæti og Snæfell í því þriðja,  en einungis munaði sex stigum á toppliðum deildarinnar og Stjörnunni sem sat í fimmta sæti. Leikurinn bar þess líka merki að mikið væri í húfi, en dramatíkin var ótrúleg.

Stjörnukonur voru yfir mest allan leikinn, án þess þó að ná nokkurn tímann að slíta gestina almennilega frá sér. Fyrir lokafjórðunginn leiddu Garðbæingar með fimm stigum, 56-51, en í þeim fjórða rönkuðu Snæfellskonur við sér og komust í fyrsta skipti yfir í leiknum þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir. Þegar einungis rúm hálf mínúta lifði af leiknum virtust Snæfellskonur ætla að sigla heim góðum sigri, en staðan á þessum tímapunkti var 64-70, gestunum í vil. Auður Íris Ólafsdóttir hafði hins vegar aðrar hugmyndir, en hún negldi niður risastórum þristi þegar 32 sekúndur voru eftir, og fékk villu að auki. Munurinn allt í einu kominn niður í tvö stig, og sendu Stjörnukonur Angeliku Kowalska á vítalínuna. Annað vítið fór ofan í og því þriggja stiga munur þegar Stjörnukonur brunuðu fram í sókn, og Danielle minnkaði muninn niður í eitt stig. Aftur sendu Garðbæingar Angeliku á línuna, en í þetta skiptið nýtti hún bæði skotin og munurinn aftur þrjú stig, þegar tíu sekúndur voru eftir af leiknum. Það virtist hins vegar ekki skipta Auði Írisi Ólafsdóttur miklu máli, því hún jafnaði leikinn með öðrum risaþristi þegar 3 sekúndur voru eftir, og því þurfti að framlengja.

Í framlengingunni virtust Stjörnukonur ætla að hafa betur, en þegar einungis ein sekúnda var eftir leiddu Garðbæingar með 3 stigum, 88-85, og Snæfell átti innkast á eigin vallarhelmingi. Kristen McCarthy fékk boltann úr innkastinu og reyndi vonlaust lokaskot frá eigin vallarhelmingi, en ekki vildi betur til en svo að Stjörnukonur brutu á henni í skotinu þegar flautan gall og fékk McCarthy því tækifæri til að senda leikinn í aðra framlengingu. Þvílík dramatík.

McCarthy klikkaði hins vegar úr fyrsta vítinu af þremur, og var því ljóst að Stjarnan fór með sigur af hólmi í ótrúlegum körfuboltaleik, 88-87.

Lykillinn

Leikur gærdagsins var einn þeirra sem hefði raunverulega getað dottið hvorum megin sem var. Stjörnukonur leiddu vissulega allan tímann en leikur þeirra leit ekki vel út stóran hluta af fjórða leikhluta, þegar gestirnir úr Hólminum komust yfir í fyrsta skipti. Hins vegar sýndu heimakonur mikil klókindi að ná að jafna leikinn og knýja fram framlengingu, þar sem þær voru sterkari aðilinn. Aftur á móti hefðu Hólmarar auðveldlega getað stolið sigrinum í framlengingunni, en ef til annarrar framlengingar hefði komið voru bæði Danielle Rodriguez og Bríet Sif Hinriksdóttir farnar út af með fimm villur í liði Stjörnunnar. Kristen McCarthy var illviðráðanleg í liði Snæfells, og er erfitt að sjá hvernig Stjarnan hefði ætlað að stoppa hana í annarri framlengingu.

Hetjan

Þó að Danielle Rodriguez hafi verið ótrúleg í liði Stjörnunnar eftir sem áður, með 25 stig, 12 fráköst og 12 stoðsendingar, þá er erfitt að líta fram hjá Auði Írisi þegar hetja leiksins er útnefnd. Auður steig heldur betur upp þegar á reyndi og skoraði sjö stig á síðustu mínútunni, þegar sigurinn virtist vera á leið í Stykkishólm.

Framhaldið

Eftir leik gærdagsins er baráttan um sæti í úrslitakeppninni í algleymingi, en nú er Stjarnan í fimmta sæti með 20 stig, á meðan Snæfell og Valur sitja í sætunum þar fyrir ofan með 22. Næst fara Stjörnukonur í Borgarnes 30. janúar þar sem þær mæta Skallagrími, en á sama tíma fer Snæfell í Vesturbæinn og mætir KR.