Keflvíkingar sóttur KR heim í DHL-höllinni í kvöld. KR unnu nokkuð þægilegan sigur á Skallagrími í síðasta leik en Keflvíkingar töpuðu ansi súrt á heimavelli fyrir Njarðvík í sínum fyrsta leik á árinu.

Julian Boyd var ekki lengi að keyra spennuna upp og henti í svakalega troðslu í fyrstu körfu leiksins. Liðin spiluðu á margan hátt svipað, skotnýting ekki til fyrirmyndar gegn slökum varnarleik og enduðu sóknirnar yfirleitt hjá stóru mönnunum innan teigs. KR voru beittari fyrstu tvo leikhlutana en Keflavík beit frá sér í þriðja leikhluta og framan af í þeim fjórða. Maðurinn sem þjóðin fær ekki nóg af og það skiljanlega, Mantas í Keflavík, var áberandi duglegur og nýtti vel allar mínúturnar sem hann fékk í kvöld.

Ef tölfræðin er skoðuð má sjá að liðin skiptust 16 sinnum á forystu og að 10 sinnum var leikurinn jafn. Bæði lið skoruðu mest 7 stig í röð og leiddu mest með aðeins 6 og 5 stigum hvort. Leikurinn var ótrúlega jafn og hvort sem það skrifast á heppni eða klúður þá hefði sigurinn alveg getað fallið báðu megin í kvöld. Það er hægt að ræða dóma eða ekki dóma fram og til baka en þegar uppi er staðið þá voru það einfaldlega KRingar sem stóðu örlítið framar í lokasóknum leiksins.

Byrjunarlið
KR: Jón Arnór Stefánsson, Julian Boyd, Kristófer Acox, Mike Di Nunno og Pavel Ermolinskij
Keflavík: Ágúst Orrason, Gunnar Ólafsson, Hörður Axel Vilhjálmsson, Michael Craion og Mindaugas Kacinas

Þáttaskil
Keflvíkingar endurtóku sögu síðasta leiks gegn Njarðvík þegar þeir stigu ekki út leikmenn eftir vítaskot andstæðinganna. Mistök sem eru virkilega dýr á lokamínútum háspennu leikja.

Tölfræðin lýgur ekki
Uppáhalds smiður Íslendinga, Mantas Mockevicius, kom af bekknum og var jafnframt eini leikmaður Keflvíkinga sem endaði leikinn í plús í +/- dálki tölfræðinnar. Þess má geta að hann var með +15 en aðrir liðsfélagar með 0 eða mínustölu.

Hetjan
Tilfinningaveran myndi eflaust tilnefna Helga Má Magnússon ef ekki nema fyrir það eitt að snúa enn á ný á parketið með stoltið og stælana til að rífa sína menn áfram. Hins vegar er erfitt að líta fram hjá framlagi Julian Boyd í kvöld en hann endaði leikinn með 26 stig, 8 fráköst, 3 stolna bolta, 6/6 af vítalínunni og 32 framlagsstig.

Kjarninn
KR brýnin eru komin saman á ný og ekki öfundsvert að mæta þessu liði sem Ingi Þór er að ná saman fyrir úrslitakeppnina. Nýr erlendur leikmaður liðsins leit mjög vel út á köflum og lofar góðu þegar hann hefur fengið aðeins meiri tíma með liðinu. Kristófer Acox átti einnig flottan leik á báðum endum vallarins og buðu þeir Julian Boyd upp á hverja troðsluna á fætur annari.

Tölfræði leiks

Myndasafn