Keflavík sigraði Grindavík með 88 stigum gegn 77 í kvöld í lokaleik 14. umferðar Dominos deildar karla. Eftir leikinn er Keflavík í 4.-5. sæti deildarinnar ásamt KR, á meðan að Grindavík er í 6.-7. sæti ásamt ÍR.

Gangur leiks
Leikurinn var í járnum í fyrri hálfleiknum. Liðin skiptust á stuttum áhlaupum, þar sem að Grindavík voru skrefinu á undan. Eftir fyrsta leikhluta leiða gestirnir með einu stigi, 21-22. Undir lok hálfleiksins bæta þeir svo eilítið við þá naumu forystu. Þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er Grindavík fjórum stigum yfir, 42-46.

Strax í upphafi seinni hálfleiksins fóru heimamenn að sýna mátt sinn og megin, sigra þriðja leikhlutann með tíu stigum og eru 6 yfir fyrir lokaleikhlutann, 60-54. Í honum komast þeir svo aftur á flug, mest 17 stigum yfir, en vinna að lokum með 11, 88-77.

Tölfræðin lýgur ekki
Keflvíkingar voru betri í mörgum tölfræðiþátta leiks kvöldsins, en augljósast í fráköstum. Taka 50 fráköst á móti aðeins 35 Grindavíkur. Þá tóku þeir 16 sóknarfráköst, sem mörg hver gáfu þeim auðveldar körfur.

Hetjan
Mike Craion var stórkostlegur í kvöld. Skilaði 24 stigum, 17 fráköstum, 5 stoðsendingum, 6 vörðum skotum og 2 stolnum boltum.

Kjarninn
Lið Grindavíkur leit vel út fyrstu tuttugu mínútur leiksins í kvöld. Eftir það fór, að er virtist, virkilega að draga af þeim. Það sem gerði svo útslagið var að Sigtryggur Arnar Björnsson fór útaf meiddur í nokkrar mínútur undir lok þriðja leikhlutans. Hann hafði verið frábær það sem af var leik og er undirritaður viss um að leikurinn hefði orðið meira spennandi undir lokin en raun bar vitni ef hans hefði notið við.

Keflavík gerði vel að hleypa Grindavík ekki lengra frá sér en mest 11 stigum í fyrri hálfleiknum. Leikur þeirra á tímabili þá hafði alveg innistæðu fyrir meiru fyrir þeirra hönd. Virtust ná að skipuleggja sig vel í hálfleiknum, komu allavegana mun beittari til leiks í seinni og kláruðu leikinn með glæsibrag. Bæði varnarlega, þar sem þeir leyfðu aðeins 31 stig í seinni hálfleiknum á móti þeim 46 sem komu á þá í fyrri, einnig sóknarlega, þar sem þeir virtust vera að taka hærri prósentu valkosti, þvert á hvað þeir gerðu í fyrri hálfleiknum.

Tölfræði leiks

Myndasafn