Það horfir til betri vegar fyrir ÍR-inga með hækkandi sól og auknum mannskap. Þeir fengu Hauka í heimsókn í 13. umferð deildarinnar í kvöld og eru vafalaust orðnir hungraðir í sigur. Gestirnir hafa verið í vandræðum með stóru mennina sína og Kiddi J. fær ekkert að hætta á næstunni. Bæði lið hafa safnað 8 stigum til þessa og sitja í 8-10. sæti deildarinnar ásamt Valsmönnum. Það var því um svokallaðan fjögurra stiga leik að ræða í kvöld.

Spádómskúlan: Kúlan býður upp á myndrænan spádóm að þessu sinni. Í henni birtist ÍR-merkið þar sem sólin skín í gegnum stafina. Þetta merkir að ÍR-ingar landa kærkomnum sigri eftir sturlaða spennu og læti, 85-84.

Byrjunarlið:

ÍR: Robinson, Trausti, Hákon, Kevin, Sæsi

Haukar: Hilmar, Kiddi M, Hjálmar, Daði, Russell

Gangur leiksins

Heimamenn byrjuðu lítið eitt betur í leiknum og leiddu 8-3 eftir 5 mínútna leik. Bæði lið voru ansi stirðbusaleg sóknarlega, varnir beggja liða bærilegar og lítið skorað. Gestirnir áttu hins vegar seinni hluta leikhlutans nánast óskiptan, Haukur kom sínum mönnum í 10-15 með smekklegum þristi og gestirnir leiddu 13-17 eftir einn.

ÍR-ingar fundu loksins smá takt sóknarlega í öðrum leikhluta og voru ekki lengi að jafna metin í 17-17 með fallegum þristi Fissa Kalla. Um miðjan leikhlutann leiddu ÍR-ingar 28-20 og allur vindur úr gestunum. Matti var ekki bara í búning að þessu sinni og kom inn á og setti Matta-þrist og setti stöðuna í 35-27. Borgnesingurinn snjalli, Trausti Eiríks, sá svo til þess með íðilfögrum þristi að heimamenn leiddu 40-33 í hálfleik.

Jafnræði var með liðunum framan af þriðja leikhluta og munurinn hélst í 5-10 stigum. Kevin Capers hafði tiltölulega hægt um sig í fyrri hálfleik en var allt í öllu fyrir ÍR-inga í þriðja leikhluta. Hann gerði það sem erlendir leikmenn eiga að gera fyrir liðin og átti mestan heiðurinn að góðum leikhluta heimamanna og að honum loknum leiddu ÍR-ingar 70-54.

Fátt benti til endurkoma Haukamanna en gott er að eiga bókstaflega Hauk í horni og Haukur setti 7 stig í öllum regnbogans litum fyrir sína menn í upphafi fjórða leikhluta. Það sem ÍR-ingar þurftu að gera, augljóslega, var að svara áhlaupinu með áhlaupi og það gerðu þeir. Þegar 7 mínútur voru eftir var munurinn aftur orðinn umtalsverður, 78-61 og Ívar tók leikhlé. Ekki er víst að besta leikhlé í heimi hefði einu sinni bjargað Haukamönnum og Fissi Kalli valdi augnablikin fyrir þristana sína þrjá í leiknum vel. Þegar 5:40 voru eftir smellta hann í einn flugbeittan og staðan þá 81-61. Strákarnir af bekknum hjá ÍR héldu áfram að gleðja gettóana og aðra áhorfendur með flottum körfum og vörðum skotum allt til enda – lokatölur 92-74 í kærkomnum sigri heimamanna.

Maður leiksins

Kevin Capers fær þessa útnefningu. Hann gerði gæfumuninn og lagði grunninn að sigrinum með flottum þriðja leikhluta. Hann setti 24 stig, tók 5 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Annars skiluðu margir ágætu framlagi hjá ÍR og það glitti í ÍR-liðið eins og það á að vera í þessum leik

Kjarninn

Það er að birta til hjá ÍR-liðinu og sigurinn vægast sagt kærkominn. Kevin er flottur leikmaður og Robinson nýtist liðinu alveg hreint ágætlega. Matti er kominn aftur, eðlilega ekki í toppstandi en hann og ÍR-ingar eru vafalaust sáttir við hans framlag í kvöld.

Haukar virðast hafa fengið einstaklega vonda sendingu að utan að þessu sinni. Það er hundfúlt. Russell Woods leit út eins og hann ætti skammt eftir ólifað, svo illa bar hann sig á vellinum! Ori Garmizo byrjaði á bekknum og spilaði aðallega í ruslamínútunum. Hann gæti nýst til að skúra í Schenker-höllinni í besta falli. Kristján Leifur er ekki kominn til baka og Ívar hefur um svo margt að hugsa að hann gaf sér ekki tíma til að tala við Körfuna eftir leik. Honum er fyrirgefið – vonandi finnur hann einhverjar lausnir fyrir liðið sitt.

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Þorsteinn Eyþórsson)

Umfjöllun: Kári Viðarsson