Tindastóll tók á móti Stjörnunni í kvöld í lokaleik 8-liða úrslita Geysisbikarsins í körfuknattleik. Heimamenn, sem eru ríkjandi bikarmeistarar hafa dalað verulega í spilamennsku eftir áramótin en Stjarnan hefur styrkt sig töluvert frá því fyrir jól.

Stjörnumenn byrjuðu leikinn af miklum ákafa og komust fljótlega í 7-0 áður en heimamenn áttuðu sig. Gestirnir leiddu allan leikhlutann og komust mest í 12 stiga forystu áður en Brynjar lagaði stöðuna aðeins með þristi, 17-26 við lok leikhlutans. Heimamenn byrjuðu annan leikhluta með áhlaupi og náðu að minnka muninn í 3 stig áður en Stjörnumenn tóku við sér og juku muninn aftur. Tindastóll náði síðan öðru áhlaupi, dyggilega studdir af Grettismönnum í stúkunni og staðan 37-39 þegar um 2 og hálf mínúta voru til leikhlés. Brandon og Ægir bættu svo aðeins í og staðan 42-46 í hálfleik og þetta var enn leikur.

Heimamenn í Tindastól hafa oft náð að spila vel í 3ja leikhluta leikja en í kvöld var því alls ekki svo farið. Ekkert vildi ofaní og Stjörnumenn sigldu hægt en örugglega framúr. Stólum var fyrirmunað að hitta körfuna og fyrstu stig liðsins í 3ja leikhluta komu ekki fyrr en eftir næstum 6 og hálfa mínútu þegar Danero Thomas setti tvö víti. Þá var munurinn orðinn 19 stig og ljóst að kraftaverk þurfti til þess að Tindastóll næði að vinna leikinn og komast áfram til að verja titil sinn. Ekkert slíkt kraftaverk var hinsvegar í kortunum, Stjörnumenn sýndu öruggan leik og sigldu sigrinum heim án teljandi vandræða.

Brandon Rozzell og Ægir Þór fóru fyrir gestunum og skoruðu 21 stig hvor. Ægir reif að auki niður 8 fráköst og var að spila fantagóða vörn á Brynjar allan leikinn. Hlynur reif niður 11 fráköst og var sterkur í vörn að vanda. Hjá heimamönnum var fátt um fína drætti og það var helst að liðið næði sér á strik þegar Pétur Rúnar keyrði að körfunni og bjó til pláss. Annars var sóknarleikurinn ráðleysislegur og menn höfðu ekki mikla trú á skotunum sínum.

Tölfræði leiks

Umfjöllun, myndir & viðtöl / Hjalti Árna

Helgi Rafn: 

Hlynur Bærings: