Njarðvík tók á móti Tindastól í toppslag Dominos úrvalsdeildar karla í kvöld. Stólarnir unnu eftirminnilegan sigur á Njarðvík í október. Bæði lið mættu með sín sterkustu lið á skýrslu en bæði lið hafa verið með mikilvæga leikmenn á sjúkraskrá.

Ljóst var að tækist Njarðvíkingum að sigra Tindastól væru þeir orðnir ansi líklegir til að taka deildarmeistaratitilinn með 6 stiga forystu á toppnum.

Það var strax á fyrstu mínútum leiksins ljóst að þetta yrði mikill baráttu leikur. Bæði lið mættu mjög ákveðið til leiks. Njarðvíkingar náðu smá forystu en Stólarnir átu hana upp og komust 8 stigum yfir eftir rúmlega 6 mínútna leik. Njarðvíkingar komu svo sterkir til baka síðustu mínúturnar. Staðan eftir fyrsta leikfjórðung 17 – 20.

Njarðvíkingar komust einu stigi yfir snemma í öðrum leikhluta. Mario Matasovic var hreint frábær, reif fráköst og setti stig. Áfram var mikil harka í leiknum og liðin komust aldrei langt frá hvort öðru. Staðan í hálfleik 36 – 37.

Gestirnir byrjuðu þriðja leikhluta betur og komust mest 8 stigum yfir. Njarðvíkingar átu þá forystu niður og leikurinn var í járnum 54 – 54 þegar rúmar 3 mínútur voru eftir af leikhlutanum. Stólarnir áttu svo góðan 1 – 8 kafla. Staðan fyrir síðasta leikhlutann 55 – 62.

Njarðvíkingar gerðu leikinn strax að einnar körfu leik. Stólarnir héldu áfram forystunni og Njarðvík elti framan af leikfjórðungnum. Þegar 3 mínútur voru eftir var staðan 69 – 70 og ljóst að lokamínúturnar yrðu mjög spennandi. Allt var hnífjafnt 75 – 75 eftir frábæran þrist hjá Loga Gunnarsyni. Tæpar 19 sekúndur á klukkunni og Tindastóll með boltann. Brotið var á Pétri og hann klikkaði á fyrra vítinu en setti seinna. Njarðvík með boltann, tæpar 10 sekúndur á klukkunni og Stólarnir 1 stigi yfir. Jeb klikkaði á þrist og Stólarnir fengu boltann. Njarðvíkingar náðu ekki að nýta sér færin til að klára leikinn og Tindastóll stóðu því uppi sem sigurvegarar 75 – 76.

Byrjunarlið:

Njarðvík: Elvar Már Friðriksson, Jeb Ivey, Ólafur Helgi Jónsson, Maciek Baginski og Mario Matasovic.

Tindastóll: Pétur Rúnar Birgisson, Viðar Ágústsson, Brynjar Þór Björnsson, Urald King og Danero Thomas.

Þáttaskil:

Naglbítur þar sem Stólarnir gerðu nóg.

Tölfræðin lýgur ekki:

Stólarnir hittu betur en Njarðvíkingar bæði fyrir innan og utan þriggja stiga línuna.

Hetjan:

Stigin dreifðust nokkuð vel hjá báðum liðum. Hjá heimamönnum var Mario Mantasovic mjög góður, með 15 stig og 15 fráköst. Elvar Már Friðriksson átti einnig góðan leik, skoraði 20 stig og leiddi Njarðvíkinga síðustu mínúturnar í góðri atlögu að sigri. Danero Thomas átti fínan leik en Urald King var bestur á vellinum, skilaði 25 stigum og 10 fráköstum.

Kjarninn:

Tvö svakalega góð lið sem verður gaman að fylgjast með í úrslitakeppninni áttust við í kvöld. Áhorfendur voru flottir og virkilega gaman að sjá stuðningsmenn vera að gíra sig upp í úrslitakeppnina á þennan hátt. Jeb Ivey sem átti ekki sinn besta leik reyndi í tvígang erfiða þrista sem skiluðu sér ekki. Hann hefur oft klárað leiki fyrir Njarðvík en það tókst ekki í kvöld. Stólarnir áttu sigurinn skilið og gerðu akkúrat nóg til að fara heim með hann í kvöld.

Tölfræði

Myndasafn

Viðtöl: