Leikurinn byrjaði nokkuð jafnt en fljótlega voru það gestirnir sem tóku frumkvæðið og virkuðu mun ákveðnari en heimamenn í flestum aðgerðum. Varnarleikur Tindastóls virkaði ekki sannfærandi og í sókninni kom vel fram hversu mikið heimamenn söknuðu þeirra Urald King og Péturs Rúnars sem sátu meiddir á hliðarlínunni. Staðan 16-25 eftir fyrsta leikhluta og langt síðan Stólar hafa fengið á sig svo mörg stig í leikhluta. Þessi slaki varnarleikur hélt áfram fram að hálfleik og gestirnir leiddu með 9 stigum í hálfleik eftir klúður heimamanna í lokasókninni og troðslu Simonev í lokin.

Heimamenn í Tindastól náðu að berja í brestina í vörninni í seinni hálfleik og skáru niður forskot gestanna og komust yfir um miðjan 3ja leikhluta með þristum frá Danero Thomas og Brynjari sem hafði ekki verið sjálfum sér líkur fram að því. Valsmenn sprettu þó til baka og leiddu með einu stigi fyrir lokaleikhlutann 67-68. Liðin skiptust á forystunni alls 7 sinnum í leiknum. Það var gríðarleg barátta sem réði ríkjum í lokafjórðungnum og þegar 5 og hálf mínúta lifðu leiks náðu Valsmenn 11 stiga forystu 70-81 og útlitið svart hjá heimamönnum. Tveir þristar frá Hannesi og einn frá Danero löguðu stöðuna en þegar 13 sekúndur voru eftir fékk Aleks Simeonov tvö víti og hefði getað gert út um leikinn með því að hitta úr þeim báðum. En hann hitti ekki úr seinna vítinu, Hannes tók frákastið og heimamenn geystust í sókn 3 stigum undir og allt á suðupunkti. Valsmenn spiluðu ákafa vörn en þegar rétt um 3 sekúndur lifðu leiks fékk Danero Thomas boltann og setti niður mjög erfiðan þrist með mann í andlitinu! 84-84 og framlengja þurfti leikinn. Heimamenn voru svo sterkari í framlengingunni en litlu munaði að gestirnir næðu að stela sigrinum í lokin en tvö feiknasterk sóknarfráköst frá Viðari Ágústssyni björguðu sigrinum fyrir Tindastól, 97-94.

Það er ljóst að Tindastóll saknar mjög Péturs og Urald King enda báðir frábærir leikmenn og fjarvera slíkra leikmanna væri blóðtaka fyrir öll lið. Leikur liðsins riðlaðist bæði í sókn og vörn og ekki svipur hjá sjón miðað við fyrir jól. Danero Thomas og Dino Butarac stigu upp og Brynjar tók sig á í seinni hálfleik og setti mikilvæg skot. Hannes Ingi, Viðar, Friðrik og Helgi Rafn komu inn með ágætis baráttu og liðið fékk aðeins 35 stig á sig í seinni hálfleik sem gerði gæfumuninn.

Valsmenn spiluðu heilt yfir vel og voru yfir í flestum tölfræðiþáttum leiksins. Þeir rústuðu frákastabaráttunni, tóku 60 fráköst gegn aðeins 43 hjá heimamönnum og þeir Raggi Nat og Simeonov nutu sín með 13 fráköst hvor. Allir leikmenn Vals sem skoruðu í kvöld fóru yfir 10 stig, Aleks Simeonov var atkvæðamestur með 16 stig en var mistækur í lokin.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, myndir viðtöl / Hjalti Árna