Stjarnan fékk Blika í heimsókn í 13. umferð Dominos-deildarinnar. Stjörnumenn hafa verið í rífandi fínum gír að undanförnu og Brandon Rozzell gæti verið túrbó-gírinn sem kannski vantaði í skiptinguna. Blikar hafa verið meira og minna allt tímabilið eins og biluð plata sem neitar að spila sigurtóninn. Platan er ágæt og fínir tónar hafa hljómað á löngum köflum en Blikar sitja enn á botninum með 2 stig. Jafnvel þó svo að Kofi og nýr Kani hafa verið kallaðir til aðstoðar er erfitt að sjá fyrir sér hljóminn breytast mikið í kvöld…

Spádómskúlan: Kúlan segist fíla Blikaliðið og ekki síst meistara Pétur Ingvars…,,en æji…sorry Stína…sama sagan enn og aftur, tap þrátt fyrir ágæta frammistöðu.“ Lokatölur 84-101.

Byrjunarlið:

Stjarnan: Antti, Ægir, Hlynur, Tommi, Rozzell

Blikar: Snorri Vignis, Hilmar, Jameel, Kofi, Bjarni 

Gangur leiksins

Bjarni opnaði leikinn með fínum þristi en eftir þrist frá Rozzell var forystu gestanna í leiknum lokið fyrir fullt og fast. Að vísu var staðan jöfn 11-11 um miðjan leikhlutann en að honum loknum höfðu Stjörnumenn sett 27 stig gegn 15 stigum Blika. Líkt og sjá má á stigafjölda heimamanna eftir einn fjórðung var varnarhreyfing Blika eins og hjá dreymandi manni í lamandi óttakasti og Stjörnupiltar fengu þau skot sem þeir vildu í hverri einustu sókn.

Það tók ekkert betra við hjá gestunum í öðrum leikhluta. Þó svo að engin ástæða sé til þess að gagnrýna spilamennsku heimamanna var slakur varnarleikur Blika mest áberandi. Gestirnir voru einnig nokkuð duglegir við að tapa boltanum á ansi klaufalegan hátt sem bætti auðvitað ekki úr skák. Þó sýndi Kofi ágæta spretti sóknarlega fyrir Blika og Sveinbjörn kom inn í leikinn með krafti. Á sama tíma hittu Stjörnumenn illa og um miðjan leikhlutann var munurinn aðeins 8 stig, 38-30. Í hálfleik leiddu heimamenn hins vegar með 13, staðan 57-44.

Stjarnan kom grimm inn í seinni hálfleikinn og e.t.v. var uppleggið að herða vörnina og klára leikinn sem fyrst. Ef svo var gekk það fyllilega upp, Blikar sáu ekki körfuna mest allan leikhlutann og Pétur tók leikhlé í stöðunni 67-46. Það hafði engin sjáanleg áhrif. Vörnin var svo hræðileg að Blikar fóru í svæðisvörn en þó Brilli spili ekki með Stjörnunni hjálpaði það ekkert. Leik var í raun lokið áður en þriðji leikhluti var allur, staðan að honum loknum 85-51.

Af fjórða leikhluta er bara nákvæmlega ekkert að segja. Minni spámenn fengu að spreyta sig en fyrir áhorfendur er ruslafjórðungur ekki beint á óskalistanum. 102-73 öruggur sigur heimamanna niðurstaðan.

Kjarninn

Stjarnan ofmetnast tæplega eftir þennan leik. Sigurinn var þægilegur, kannski of þægilegur því þeir verða fáir svona í þessari deild. Liðið býr hins vegar yfir umtalsverði reynslu og Arnar veit vel að þessi sigur hjálpar liðinu ekkert í næsta leik.

Blikar tefldu fram nýjum bandarískum leikmanni í leiknum að nafni Jameel McKay og Kofi Omar var að spila sinn annan leik fyrir félagið. Það tekur tíma að stilla saman strengi og e.t.v. vex Blikum ásmegin þegar liðið hefur spilað og æft meira saman. Arnór Hermanns hefur verið veikur og missti af þessum og síðasta leik og mun verri eru fréttirnar af Snorra Hrafnkels en hann verður líkast til ekki meira með í vetur vegna höfuðmeiðsla. Þrátt fyrir allt er Pétur brattur sem og strákarnir í liðinu eins og kemur fram í viðtali Körfunnar við kappann.

Tölfræði leiksins

Umfjöllun: Kári Viðarsson