Haukar sigruðu Tindastól fyrr í kvöld með 73 stigum gegn 66 í fjórtándu umferð Dominos deildar karla. Eftir leikinn er Tindastóll í 2. sæti deildarinnar, fjórum stigum frá Njarðvík í toppsætinu. Haukar eru í 8.-9. sætinu ásamt ÍR.

Hérna er meira um leikinn

Karfan spjallaði við leikmann Tindastóls, Pétur Rúnar Birgisson, eftir leik í DB Schenker höllinni í Hafnarfirði.

Karfan: Mér fannst þið alveg rosalega daufir í þessum leik, það vantaði alla stemmningu hjá ykkur. Ertu sammála því?

Pétur: Já, það er alveg hægt að segja það. Við náðum aldrei að berja okkur í gang. Við vorum allan leikinn eitthvað að reyna en aldrei gekk það og vorum alltaf að elta einhvern veginn.

Karfan: Munar svona mikið um King?

Pétur: Það munar auðvitað eitthvað um hann en við eigum samt klárlega að geta þjappað okkur saman og mætt alla veganna til að sýna smá baráttu og vilja til að vinna leiki. Við gerðum það kannski ekki alveg í kvöld.

Karfan: Þið voruð kannski að skjóta fullmikið þristum og hittuð ekki vel, þetta er kannski að gerast svolítið útaf því að King er ekki með?

Pétur: Jújú, það er klárt mál að hann er auðvitað okkar helsta ógn inn í teignum og það munar miklu en við vorum að fá fullt af góðum skotum en vorum bara ekki að setja þau niður.

Karfan: Jájá, hefuru áhyggjur af stöðunni?

Pétur: Nei alls ekki. Það er enn janúar og það er langur vegur framundan. Við þurfum bara að fara að þjappa okkur aftur saman og sýna sama karakter og við sýndum í desember.

Karfan: Það er kannski pínu súrt að missa Njarðvík á undan ykkur og kannski minni líkur á að ná deildarmeistaratitlinum og heimavallarrétti alla leið?

Pétur: Jájá, en deildin er mjög sterk og liðin eru að bæta við sig hérna hægri vinstri. Ég held að ekkert lið sé að fara að labba í gegnum alla leiki og vinna þá alla. Við erum ennþá í séns og við höldum í vonina.

 

Viðtal / Kári Viðarsson