Lið Grindavíkur og Skallagríms mættust í Mustad-höllinni í Grindavík í 2. umferð (eftir áramót) í kvöld.  Grindvíkingar lemstraðir þar sem Tiege Bamba var meiddur í baki og Hilmir Kristjáns meiddist á lokasekúndum í Breiðabliksleiknum, tognaður aftan í læri.

Skallarnir fullskipaðir en samt bara 10 á skýrslu…

Gestirnir byrjuðu mun betur en vörn heimamanna var ansi léleg til að byrja með og greinilegt að þeir söknuðu Bamba sem er hörku varnarmaður!  Jói þjálfari tók Lewis Clinch fljótlega út af og við það kom meiri ákafi í vörnina sem lagaðist þá og Grindvíkingar tóku yfirhöndina.  Eins frábær sóknarmaður og Clinch er venjulega þótt hann hafi ekki sýnt það í kvöld, þá virðist hann ekki alltaf hreinlega nenna að spila vörnina og þarf að bæta það ef gulir ætla sér langt í vetur.  Grindvíkingar fengu frábæra innkomu hreinræktaðra heimamanna því Kristófer Breki, Nökkvi Már og Jens Óskarsson sem ekki hefur mikið látið að sér kveða undanfarin ár, snéru taflinu við.  Heimamenn með yfirhöndina allan fyrri hálfleikinn og munaði 8 stigum að honum loknum, 49-41.  Sigtryggur Arnar sem nálgast óðfluga formið sitt síðan á síðasta tímabili, var stigahæstur heimamanna með 16 stig en hinum megin var Aundre Jackson kominn með 17.

Segja má að hápunktur kvöldsins hafi verið milli 3. og 4. leikhluta en þá gerði hamborgaragrillmeistari Kkd. Umfg, Atli Kolbeinn sér lítið fyrir og smellti Papas -körfuboltaskotinu ofan í frá miðju og vann sér inn 50þús kr. inneign hjá Papas pizzu í Grindavík!  Spurning um að setja kappann í búning í næsta leik!

Aundre hélt uppteknum hætti í seinni hálfleik og áttu heimamenn í mestu vandræðum með að halda aftur af honum en hann endaði með 35 stig og 10 fráköst.  Grindvíkingar leiddu samt oftast með 5-10 stigum en þegar Skallarnir skiptu yfir í svæði þá virtist það ætla ríða baggamuninn því þegar rúm mínúta lifði leiks leiddu þeir með 1 stigi, 82-83!  Jóhann tók þá leikhlé og upp úr því var brotið á Sigtryggi í 3-stiga skoti og setti hann öll vítin niður, Jackson klikkaði í góðu færi og Clinch setti þrist hinum megin og leikurinn þannig séð búinn!  Oft ansi stutt á milli hláturs og gráturs í þessari yndislegu íþrótt!

Sigtryggur skilaði mestu framlagi í dag hjá heimamönnum eða 27 punktum (26 stig, 4 fráköst og 5 stoðsendingar).  Óli, Jordy og Breki þeir einu sem skiluðu sér í tveggja stafa framlagspunktatölu.  Fyrrnefndur Lewis „Tweedy“ Clinch með einungis 7 framlagspunkta.

Aunde Jackson sem kom hingað til lands með eitt flottasta cv-ið á bak við sig hvað varðar framgöngu í háskólaboltanum en Laytoya skólinn hans komst alla leið í „Final four“ á síðasta tímabili, var virkilega flottur í kvöld og skilaði 39 framlagspunktum (35 stig og 10 fráköst).  Eyjólfur Ásberg er gríðarlegt efni og munaði miklu fyrir Skallana að fá hann til baka en þeir eru miklu sterkara lið með hann innanborðs.  Í sínum fyrsta leik í langan tíma skilaði hann flottum tölum í kvöld en það dugði bara ekki til, 17 framlagspunktar (11 stoðsendingar).  Björgvin Hafþór og Domogoj Samac   sigldu yfir 2 stafa framlagsmúrinn.  3. útlendingur  Skallana gerði ekki mikið, Matej Buvac með 4 framlagspunkta (12 stig en léleg skotnýting).

Næstu leikir liðanna eru þessir:

Keflavík – Grindavík

Skallagrímur – Stjarnan