Fimmti sigurleikur Vals í röð kom í kvöld er liðið fékk Skallagrím í heimsókn í fimmtándu umferð Dominos deildar kvenna.

Skemmst er segja að leikur kvöldsins hafi aldrei verið spennandi, nema þá í stöðunni 3-2 en svo ekki sögunni meir. Valur komst í 21-6 snemma í leiknum og gaf þá forystu í raun aldrei frá sér.

Staðan í hálfleik var 44-21 fyrir Völsurum sem léku gríðarlega vel gegn þunnskipuðum Borgnesingum.

Valsarar bættu áfram í og unnu að lokum öruggan 40 stiga sigur 83-43. Valur hefur nú unnið fimm leiki í röð og nálgast toppinn óðfluga.

Skallagrímur lék án Sigrúnar Sjafnar Ámundadóttur og munar sannarlega um minna. Nýr leikmaður liðsins Brianna Banks átti fínan leik með 16 stig og 6 fráköst, skotnýting hennar var hinsvegar afleidd.

Stigaskor Vals dreifðist mjög vel en Heather Butler var stigahæst með 16 stig og 5 fráköst. Helena Sverrisdóttir var allt í öllu líkt og áður, endaði með 11 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar. Þá átti Simona Podesvova ótrúlegan leik þar sem hún tók 20 fráköst, þar af átta sóknarfráköst.

Myndasafn (Torfi Magnússon)

Valur-Skallagrímur 83-43 (26-11, 18-10, 18-13, 21-9)

Valur: Heather Butler 16/5 fráköst, Dagbjört Dögg Karlsdóttir 14/7 stoðsendingar, Ásta Júlía Grímsdóttir 12/8 fráköst, Helena Sverrisdóttir 11/5 fráköst/5 stoðsendingar, Hallveig Jónsdóttir 8, Simona Podesvova 7/20 fráköst, Kristín María Matthíasdóttir 6, Bergþóra Holton Tómasdóttir 5/4 fráköst/6 stoðsendingar, Dagbjört Samúelsdóttir 2/4 fráköst, Elísabet Thelma 2, Tanja Kristín Árnadóttir 0.

Skallagrímur: Brianna Banks 16/6 fráköst, Shequila Joseph 10/13 fráköst, Maja Michalska 9/8 fráköst, Ines Kerin 6, Arna Hrönn Ámundadóttir 1, Árnína Lena Rúnarsdóttir 1, Karen Dögg Vilhjálmsdóttir 0, Þórunn Birta Þórðardóttir 0, Guðrún Ósk Ámundadóttir 0.