Æsispennandi leikur fór fram fyrr í kvöld þegar ÍR tók á móti Skallagrím í átta liða úrslitum Geysisbikar karla.

Heimamenn fóru betur af stað en Borgnesingar komust aftur inní leikinn þegar leið á seinni hálfleikinn. Upphófst æsilegur seinni hálfleikur þar sem engu mátti muna á liðunum.

Svæðisvörn sem ÍR skellti í í fjórða leikhluta gerði gæfumuninn en Skallarnir misstu taktinn um stund við það sem kom breiðhyltingum í bílstjórasætið. Að lokum fór svo að ÍR sigraði 86-79 og er komið í Höllina.

Kevin Kapers var stigahæstur með 27 stig og bætti við 9 fráköstum og 7 stoðsendingum. Sigurður Þorsteinsson var einnig öflugur á báðum endum vallarins. Mikilvægi Matthíasar Orra kom bersýnilega í ljós í leiknum en hann lenti í villuvandræðum snemma í leiknum og féll leikur ÍR við það að hann fór á bekkinn.

Hjá Borgnesingum var Domogoj Samac öflugur með 20 stig og 6 fráköst. Þá var Aundre Jackson einnig með 20 stig. Borgnesingar geta nagað á sér handabökin að hafa tapað frákastabaráttunni harkalega en liðið fékk 20 sóknarfráköst á sig.

ÍR er þar með komið í Höllina en fimm ár eru liðin frá því liðið var þar síðast. Það mun koma í ljós á miðvikudag hver andstæðingur ÍR verður.

Tölfræði leiksins

Myndasafn: Ólafur Þór

Viðtal við Borce eftir leikinn

Nokkrar myndir úr leiknum má sjá hér að neðan: