Fyrri undanúrslitaleikur þýsku bikarkeppninnar fór fram í dag þar sem Martin og félagar í Alba Berlín mættu Frankfurt Skyliners.

Berlínarmenn gáfu tóninn snemma í leiknum og náðu góðri forystu strax í fyrri hálfleik. Þá forystu gáfu þeir ekki frá sér og lokastaðan 105-70 fyrir Alba Berlín.

Martin Hermannsson var líkt og venjulega í byrjunarliðinu og lék nærri 19 mínútur í leiknum. Hann skilaði 7 stigum og 5 stoðsendingum í leiknum.

Alba er þar með komið í úrslit bikarkeppninnar sem fram fer 17. febrúar næstkomandi. Þar mætir liðið annað hvort Brose Bamberg eða Bonn en það kemur í ljós síðar í kvöld hvort liðið það verður.