Fjölnir hefur komist að samkomulagi við Marques Oliver um að leika með liðinu það sem eftir er af tímabilinu. Oliver er Fjölni kunnugur, en hann lék með þeim fyrst er hann kom til Íslands árið 2017. Síðan þá hefur hann leikið í Dominos deildinni með Þór Akureyri og nú síðast Haukum á fyrri hluta þessa tímabils. Í 8 leikjum með Haukum fyrir áramót skilaði hann 20 stigum, 12 fráköstum og 2 stoðsendingum að meðaltali í leik, en hann var sá fimmti framlagshæsti í Dominos deildinni fyrir áramót.

Samkvæmt heimildum mun Oliver verða eini Bandaríkjamaður liðsins, en Anton Olonzo Grady, sem var með þeim fyrir áramót, mun ekki koma aftur. Var það samkomulag gert milli Grady, stjórnar og þjálfara að leiðir myndu skilja á þessum tímapunkti. Í 11 leikjum með Fjölni í vetur skilaði Grady 27 stigum, 17 fráköstum og 3 stoðsendingum að meðaltali, en hann leiddi deildina í framlagi fyrir áramót.

Fjölnir er sem stendur í harðri baráttu við topp fyrstu deildarinnar. Í öðru sætinu á eftir Þór Akureyri, með 8 sigra eftir fyrstu 11 umferðirnar. Fyrsti leikur þeirra eftir áramótin er heima gegn Sindra þann 11. næstkomandi.