Valsmenn mættu í DHL höllina í gærkvöldi til þess að etja kappi við Íslandsmeistara KR. Valsarar hafa verið að tapa jöfnum leikjum undanfarið með grátlegum hætti en KR hefur verið á ágætis skriði, fyrir utan tapið gegn Þór Þorlákshöfn.

Valsmenn byrjuðu betur en KR náði að síga framúr undir lok annars leikhluta og létu forystuna í raun aldrei af hendi þrátt fyrir ágætis tilburði nágrannana úr hlíðunum.

Jón Arnór Stefánsson var bestur KR-inga í leiknum með 24 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar en hjá Val var Dominique Rambo yfirburðamaður og skellti í 42 stig, 5 fráköst og 5 stoðendingar fyrir sína menn.

 

Kjarninn

Undirrituðum finnst eins og KR séu að komast á skrið, breiddin í liðinu er orðin talsverð eftir innkomu, Pavels, Finns og Helga og er Ingi Þór að rúlla þetta á talsvert mörgum mönnum. Það er eftirtektarvert hversu rólegir leikmenn liðsins voru undir lokin, sérstaklega í ljósi leiksins gegn Þór um daginn. Leikmenn eins og Emil Barja og Pavel voru að setja stór skot án þess að svitna, það er sjálfstraust í liðinu og varnarleikurinn að batna.

 

Tölfræðin lýgur ekki

KR-ingar hafa yfir talsvert meiri breidd að ráða en Valur svo að þeir treysta ekki eins mikið á einstaklingsframtakið. Vesturbæingar voru duglegir að láta boltann ganga til þess að finna besta skotið og þegar að upp var staðið voru þeir með næstum þrefalt fleiri stoðsendingar í leiknum heldur en Valsmenn, sem treystu nær eingöngu á Rambo og Simonov til þess að búa til skot. Lokatölur 23 stoðsendingar hjá KR og 8 hjá Val.

 

Krepputíminn

Enn og aftur gefa Valsarar eftir undir lokin, það er að verða eitt af því sem einkennir liðið sem er ekki nægilega gott. Ef að Skallagrímur væri að vinna einhverja leiki hefði maður áhyggjur af Val, en þar sem það er lítið að gerast í þeim efnum þá ættu Hlíðarendapiltar að vera öruggit með sæti sitt í deildinni að ári.

Það breytir því þó ekki að sóknarleikur Vals í krepputímanum undir lok leikja hefur verið oft á tíðum verið hugmyndasnauður og ekki nægilega ákveðinn og var það tilfellið í kvöld. Valsmenn hafa ekki enn vanist því að Kendall Anthony er ekki að spila með liðinu en þrátt fyrir góðann leik í kvöld er Rambo ekki sami skorarinn og Kendall var.

 

Tölfræði leiksins