Hlynur Bærings var sáttur með stigin og bjartsýnn á framhaldið hjá liðinu eftir sigurinn á ÍR í Dominos deild karla.

Þetta var kannski ekki auðveldur sigur, þetta var ekki komið fyrr en þarna um miðjan fjórða leikhluta?

Já einmitt. Það kom run þarna frá Brandon þar sem hann tók þarna þrjá þrista, það var svaka play! Hann kláraði leikinn endanlega með þeim, þá fann maður að vonin hvarf endanlega með því hjá ÍR.

þið leidduð með 2-10 stigum allan leikinn en þeir komu til baka aftur og aftur. Samt sem áður virtust þið alltaf vera með þetta í ykkar höndum, hafðir þú þá tilfinningu líka?

Já, við töldum okkur vera með betra lið og að við þyrftum bara að spila okkar leik og þá ættum við að vinna. En við erum með breytt lið – mjög góðar breytingar eins og þú sást – en það vantar samt aðeins upp á hjá okkur, þeir voru að taka rosalega mikið af sóknarfráköstum og héngu inn í leiknum alveg löngum stundum á því. Það drap svolítið momentið hjá okkur, við náðum kannski ágætis vörn en þá náðu þeir frákastinu, tóku annað skot og tóku jafnvel annað sóknarfrákast.

…já mikið rétt, og þið fenguð nokkra þrista í andlitið einmitt eftir sóknarfráköst…

…já, það var svolítið pirrandi. En við vorum alveg með þetta.

Ég verð að segja að það kom mér svolítið á óvart að þið skylduð skipta um Kana en það hlýtur bara að segja hvað ég veit lítið því að hann er búinn að troða þeim efasemdum ofan í kokið á mér – það er ekki annað að sjá en að hann sé bara helvíti góður þessi gaur!

Hann er mjög góður, hann er mjög góður að skapa bæði einn á einn og upp úr hindrunum. Það er ekki séns fyrir miðlungs eða slakan varnarmann í úrvalsdeildinni að spila einn og einn á hann, til þess þarf góðan varnarmann. Við erum spenntir yfir því að fá þennan leikmann en við vorum ekkert að reka lélegan mann sko! Hann (Paul Jones) var t.d. mjög góður í hjálparvörninni og frákastaði vel og það er einmitt það sem okkur vantaði svolítið í þessum leik. Þetta þurfum við að bæta. Við missum vissulega það sem Paul gerði, hann var ekki lélegur leikmaður, en fáum annað í staðinn.

Jájá, það kostar eitthvað að skipta en það kemur vonandi vel út að lokum.

Við vildum bara hafa tvo leikmenn sem geta búið meira til en Paul gerði. Paul var alveg ofboðslega góður liðsmaður en svolítið hlédrægur. Við vildum einfaldlega fá gaur sem getur búið eitthvað til úr litlu.

Einmitt. En þetta lítur bara vel út hjá ykkur núna?

Þetta lítur mjög vel út, við þurfum að bæta varnarleik og fráköst en þetta er með því besta sem við höfum gert sóknarlega.

Meira má lesa um leikinn hér.

Viðtöl: Kári Viðarsson