ÍR tók á móti Grindavík í sannkölluðum naglbít í öðrum deildarleik liðanna í Hertz-hellinum í kvöld. Eftir brösuga byrjun hjá báðum liðum varð leikurinn mjög jafn og spennandi og Grindvíkingar mörðu tvær framlengingar áður en ÍR-ingar unnu loks eftir aðra framlenginguna, 75-73.

Gangur leiksins

Bæði lið voru dálítið lengi að fara í gang og hittu hörmulega í fyrsta leikhlutanum, enda rötuðu samtals aðeins 3 skot af 32 rétta leið hjá liðunum. ÍR og Grindavík sýndu lítil gæði sóknarlega í öllum fyrri hálfleiknum en það mátti að vísu þakka með góðri vörn beggja liða. ÍR stúlkur hittu til að mynda ekki úr þriggja stiga skoti fyrir hálfleik og Grindvíkingar fengu ekki nema 6 vítaskot (þó þær hafi nýtt 5 þeirra). Staðan í hálfleik var 20-19 fyrir heimaliðinu.

Grindavík kom öflugara inn í seinni hálfleikinn og eftir að hafa skipst á stigum við ÍR í nokkrar mínútur tóku gestirnir 10-0 áhlaup til að koma stöðunni í 28-38. Þær gul- og bláklæddu spiluðu góða vörn og voru að leggja gildrur fyrir leikstjórnendur Breiðhyltinga á miðjum velli sem skilaði sér í að heimastúlkur fóru að verða litlar í sér og hörfa undan. ÍR-ingar náðu þó aðeins vopnum sínum á ný undir lok fjórðungsins og gátu lagað stöðuna í 33-39 fyrir fjórða leikhlutann.

ÍR-ingar mættu í fjórða með forsi og sóknin fór að flæða betur. Góð vörn sem og góðar innkomur hjá mörgum leikmönnum ÍR-inga varð til þess að þær tóku 11-0 áhlaup á Grindvíkinga á fjögurra mínútna kafla og staðan var skyndilega orðin 54-49 fyrir heimamönnum. Gestirnir hættu þó aldeilis ekki að berjast og eftir öflugar varnir og sóknir á lokamínútunni náði Ólöf Rún Óladóttir, ein af þriggja stiga skyttum Grindavíkur, að setja þrist á lokasekúndu leikhlutans til að koma leiknum í framlengingu! 57-57 eftir venjulegan leiktíma.

Liðin héldu áfram að skiptast á körfum í framlengingunni en ÍR var yfirleitt með forystuna, þó ekki væri nema 1-2 stig, og spiluðu af meira öryggi en þær höfðu sýnt fyrr í leiknum. Grindavík gat samt haldið í við þær og enn og aftur náðu gestirnir að merja framlengingu með öðrum þristi á lokasekúndunum til að jafna leikinn, aftur í boði Ólafar Rúnar! 64-64!

Villuvandræði fóru að gera vart við sig hjá báðum liðum, en Hrund Skúladóttir, stjörnuleikmaður Grindavíkur, hafði farið út af með 5 villur í fyrri framlengingunni og Nínu Jenný Kristjánsdóttir, miðherji ÍR, þurfti líka að setjast á bekkinn með 5 villur í seinni framlengingunni. Heimastúlkur gátu þó loks skilið sig frá Grindavík á lokametrunum og unnu að lokum 75-73.

Þáttaskilin

Nína Jenný hafði framan af átt heldur slakan leik en fór loks að finna sig sóknarlega þegar 5 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Hún átti stóran þátt í að koma ÍR í þá stöðu að geta unnið leikinn og þáttaskilin eru í raun um miðjan fjórða leikhlutann þegar hún fór í gang og Grindavík varð að elta heimaliðið nær allan leikinn eftir það.

Lykillinn

Bylgja Sif Jónsdóttir var, að öðrum ólöstuðum, mjög drjúg fyrir ÍR-inga í kvöld, en hún skoraði 15 stig, tók 8 fráköst, gaf 6 stoðsendingar, stal 4 boltum og varði 2 skot. Hún var framlagshæst í liðinu sínu með 26 framlagspunkta á 31 mínútum spiluðum. Í liði Grindavíkur var Hrund Skúladóttir best með 20 stig, 15 fráköst, 5 stoðsendingar, 5 stolna bolta og eitt varið skot á 39 mínútum. Báðar voru ekki langt frá hinni merkilegu 5×5 tölfræðilínu, það að ná 5 eða meira í fimm tölfræðiþáttum (5+ stig, 5+ fráköst, 5+ stoðsendingar, 5+ stuldir og 5+ varin skot).

Tölfræðin

ÍR hitti aðeins úr 2 þristum í öllum leiknum í kvöld (9,5% nýting) gegn 7 þristum gestanna (21,2% nýting). Málið var að heimastúlkurnar voru duglegari að skora inni í teig (36 stig gegn 18 stigum) og lokuðu teignum vel á hinum enda vallarins, en Grindvíkingar hittu aðeins úr 9 af 32 skotum (28,1%) inni í teig í kvöld. Aðrir tölfræðiþættir voru svipaðir, en ÍR spiluðu betur saman ef marka má það að þær áttu 26 stoðsendingar á meðan að Grindavík átti aðeins 17 stoðsendingar.

Kjarninn

ÍR mættu mjög samheldnar og öflugar í kvöld og rétt náðu að standa af sér sterkt lið Grindavíkur. Eins og áður sagði höfðu villurnar í leiknum eflaust einhvern þátt í lokaniðurstöðunni, en þjálfari Grindavíkur, Jóhann Árni Ólafsson, var svo ósáttur eftir leikslok og lét dómarana vita það af slíkum eldmóð að þeir neyddust til að víkja honum af velli eftir að leiknum lauk. Leiðinleg lok á annars spennandi leik sem hefði hæglega getað farið á hinn veginn ef nokkur skot (og jafnvel dómar) hefðu fallið öðruvísi.

Samantektin

Þá eru Grindvíkingar dottnir niður í 3. sætið (í bili, allavega) og gætu dottið niður í 4. sætið ef að þær tapa næsta deildarleiknum sínum gegn Njarðvík 2. febrúar í Mustad-höllinni. Þær verða að herða sig ef þær vilja eiga von á öðru sætinu (og meira að segja því fyrsta) þegar tímabilinu lýkur.

ÍR-ingar hafa nú unnið annað topplið í deildinni þrátt fyrir að vera í næst neðsta sætinu og eiga enn möguleika á að komast upp í 6. sætið og jafnvel það 5. ef allt gengur upp. Þær hafa nú unnið 4 lið (Hamar, Tindastól, Fjölni og Grindavík) og geta enn reynt að vinna hin liðin í það minnsta einu sinni. Ef þær spila eins og þær gerðu í kvöld á löngum köflum gæti það alveg gerst.

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Bára Dröfn Kristinsdóttir)

Viðtöl eftir leik:

Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndir / Bára Dröfn Kristinsdóttir