Í gærkvöldi tók Breiðablik á móti Val í 11. umferð úrvalsdeildar kvenna, öðrum leiknum milli þessara liða á þessu tímabili. Leikurinn byrjaði með látum og miklu stigaskori en það fór að síga á Breiðablik eftir því sem að leið á leikinn og Valur vann að lokum öruggan sigur, 73-102.

Fyrir leikinn

Það hafði mikið breyst hjá báðum liðum frá því að þau mættust seinast. Breiðablik var búið að skipta um þjálfara og hafði þar að auki bætt við sig öðrum erlendum leikmanni, Sönju Orazovic. Valur hafði skipt um erlendan leikmann sinn (Brooke Johnson farin fyrir Heather Butler) og það sem mikilvægara var þá hafði Helena Sverrisdóttir gengið í liðið fyrir stuttu síðan. Bæði lið höfðu tapað síðasta leiknum sínum, Blikar fyrir Haukum í hálfgerðum botnslag í Schenkerhöllinni á meðan að Valsstúlkur höfðu rétt tapað fyrir KR í DHL-höllinni. Valur hafði ekki úr ýkja mörgum leikmönnum að moða, en þær höfðu aðeins 9 leikmenn í búningum og leikfæra.

Gangur leiksins

Bæði lið hófu leikinn með sterkan og góðan sóknarleik og eftir aðeins 4 mínútur var staðan orðin 15-15! Frábær skotnýting beggja liða í bland við slakan varnarleik. Valur hélt áfram að hitta vel á meðan að Blikar fóru að kólna aðeins í skotum. Við lok fyrsta leikhlutann höfðu gestirnir því væga forystu, 24-27.

Vandræði heimastúlkna með að finna körfuna héldu áfram í næsta leikhluta, en ekkert skot virtist vilja fara niður hjá þeim. Valur hélt áfram að spila góðar sóknir og Breiðablik átti í miklum vandræðum með að hemja Helenu Sverrisdóttur á köflum. Blikar settu aðeins 13 stig í leikhlutanum á meðan að Valsstúlkur héldu dampi og skoruðu 25 stig. Staðan í hálfleik var því 37-52.

Í seinni hálfleik héldu skotvandræði Blika áfram og á fyrstu 5 mínútum þriðja leikhluta skoruðu þær aðein 3 stig. Kópavogsstelpurnar fóru að pressa og spila svæðisvörn til að reyna að rugla í sóknarleik Vals, en það hafði þveröfug áhrif. Valur skoraði 16 stig í fyrri hluta fjórðungsins og endaði á að skora 31 stig á heildina gegn aðeins 15 hjá Breiðablik. Staðan var því 52-83 við upphaf seinasta leikhlutans.

Lokafjórðungurinn var lítið annað en formsatriði og bekkurinn hjá Breiðablik fékk að spreyta sig þegar ljóst var að gestirnir væru með sigurinn í höfn. Varamennirnir gátu aðeins lagað stöðuna en þó ekki meira en svo að þær töpuðu aðeins með 29 stigum, 73-102.

Lykillinn

Heather Butler, bandarískur leikmaður Vals, var stiga- og framlagshæst í leiknum með 22 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar (28 framlagspunktar). Helena Sverrisdóttir var með 15 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar en hafði augljós áhrif inni á vellinum, enda var liðið +38 í stigaskori þegar hún var inn á. Í liði Breiðabliks var Sanja Orazovic með 20 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar (19 framlagsstig, hæst í sínu liði). Sérstakt hrós fær Kristín María Matthíasdóttir, 9. leikmaður Vals (af níu leikmönnum), en á 12 mínútum skilaði hún 7 stigum og klikkaði ekki á skoti.

Tölfræðin

Eins og áður sagði voru skotnýting Blika á köflum hrikaleg. Þær settu 9/19 (47,4%) í fyrsta leikhluta en fylgdu því síðan eftir með tveimur arfaslökum leikhlutum. Í öðrum fjórðungi hittu þær aðeins 6/17 (35,3%) og bættu svo um betur í þriðja með 6/22 (27,3%). Í öllum leiknum hittu þær aðeins úr 8/31 þriggja stiga skotum (26%) á meðan að Valur hitti úr helmingi þristanna sinna (11/22). Valur frákastaði þar að auki betur (52 vs. 33) og gaf fleiri stoðsendingar (36 vs. 15).

Kjarninn

Reynsla og gæði leikmanna Vals kom fram í þessum leik, en þær sundurspiluðu pressuvörn og svæðisvörn Blika og Breiðablik gat ekki dekkað Helenu í maður-á-mann vörn. Til að vinna hefðu Blikastelpur þurft að hitta úr öllu, sem var fjarri lagi. Heimastúlkur voru líka fljótar að leita í einstaklingsframtakið þegar fór að halla undan fæti. Valsstúlkur vel að sigrinum komnar og Breiðablik verður að skoða sig og hvernig þær geti fundið lausnir í spili gegn svona sterkum liðum.

Samantektin

Þá eru Valsstúlkur komnar aftur á sigurbraut eftir tæpt tap í seinasta leik. Þær eru enn undir 50% sigurhlutfalli (5/6) og hafa tvö erfiða leiki fyrir jólafrí; Keflavík í Origo-höllinni og Stjarnan í Ásgarði. Breiðablik áttu ekki mikinn möguleika í þessum leik en þær verða að vinna einhverja leiki ef að þær vilja ekki vera dottnar úr úrvalsdeildinni fyrir lok janúar.

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Bjarni Antons)

Viðtöl eftir leikinn

Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndir / Bjarni Antonsson