Síðasta umferð Dominos-deildarinnar á þessu ári hófst í kvöld. Í Garðabænum fengu heimamenn nágranna sína úr Hafnarfirði í heimsókn. Stjörnumenn hafa kannski ekki alveg staðið undir væntingum í vetur en góðir sigrar gegn KR og Grindavík kveikja vonir um betri tíð. Haukar hafa hinsvegar verið í agalegum meiðslavandræðum á tímabilinu og töpuðu gegn Grindavík og Þór í síðustu leikjum. Marques Oliver er ekki lengur með liðinu og heimasigur augsýnilega líklegri.

Spádómskúlan:  Kúlan er fegin því að fá frekar auðvelt verkefni í lok árs. Stjarnan birtist kúlunni á fleygiferð og fyrir neðan hana má sjá vælandi og vængbrotinn hauk á jörðu niðri. Stórsigur Stjörnunnar er því óumflýjanlegur, 97-71.

Byrjunarlið:

Stjarnan: Pryor, Hlynur, Ægir, Kanervo, Addú

Haukar: Haukur, Hjálmar, Arnór, Hilmar, Kiddi M.

Gangur leiksins

Haukar létu engan bilbug á sér finna og byrjuðu af miklum krafti. Þeir áttu fyrstu fimm stig leiksins og leiddu leikinn fyrstu 6 mínúturnar en Ægir kom sínum mönnum yfir með körfu góðri og víti í 17-15. Eftir skemmtilega bræðrabyltu undir lok fyrsta fjórðungs leiddu heimamenn 25-19 eftir þrista frá Dúa og Addú.

Stjörnumenn hótuðu því að stinga af í byrjun annars leikhluta og röðuðu þristum á gestina. Haukar neituðu að láta vaða yfir sig og Daði Lár svaraði bróður sínum heldur betur! Þegar 3 mínútur voru til leikhlés náði Daði að minnka muninn í 44-40 með þristi og tveimur mínútum síðar skaut Haukur Haukum í forystu 48-49. Heimamenn áttu þó síðustu 4 stig leikhlutans og staðan 52-49 í hálfleik. Daði var stigahæstur allra í hálfleik með 13 stig. Vandamál Hauka birtist mjög í tölfræðinni en staðan var 12-3 í sóknarfráköstum.

Heimamenn byrjuðu að pressa gestina framarlega á vellinum í síðari hálfleik og það gaf góða raun. Haukar lentu í tímahraki sóknarlega og Antti og Hlynur fleygðu þristum niður hinum megin. Þrátt fyrir leikhlé Ívars og áframhaldandi stórleik Daða leiddi Stjarnan með 10+ stigum allan leikhlutann. Fyrir lokaátökin var munurinn slétt 10 stig, 79-69.

Stóru mennirnir hjá Stjörnunni gerðu í raun út um leikinn í lokaleikhlutanum. Tommi kom sínum mönnum í 85-71 með sínum þriðja þristi og Hlynur bætti öðrum við nokkru síðar og þá var staðan 90-71. Mesti móðurinn var runninn af gestunum en þeir hættu aldrei! Þó svo þeir hafi ekki átt möguleika á að koma sér inn í leikinn aftur minnkuðu þeir muninn og aðeins 11 stiga stigur Stjörnunnar að lokum, 100-89.

Menn leiksins

Yfirleitt er maður leiksins úr sigurliði en að þessu sinni verður að nefna Daða Lár fyrstan. Hann var framlagshæstur á vellinum með 29 punkta, setti 24 stig, tók 7 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Frábær leikur hjá honum og gaman að fylgjast með framhaldinu. Hjá heimamönnum var Antti stigahæstur með 27 stig en Hlynur skilaði 18 stigum, 8 fráköstum og 5 stoðsendingum.

Kjarninn

Haukar voru án Kana og Kristjáns Leifs í þessum leik. Það er of mikið, sérstaklega í baráttunni undir körfunni. Eins og kemur fram í viðtalinu við Ívar var hann því eðlilega stoltur af sínu liði þrátt fyrir tap. Haukar eru á fullu að vinna í því að finna Kana og einnig bosman-leikmann og spennandi að sjá hvernig hlutirnir eiga eftir að þróast hjá þeim á nýju ári.

Stjarnan er með hörkuflottan mannskap og þeir þurftu heldur betur á því að halda í kvöld. Paul Jones er ekki lengur með liðinu en þrátt fyrir allt ætti liðið e.t.v. að vinna leik sem þennan á öruggari hátt. Arnar var einkum og aðallega ánægður með stigin eftir leik en ekki svo mjög með spilamennskuna. Liðið mun fá nýjan Kana eftir áramót rétt eins og Haukar þannig að ljóst er að nýja árið verður ekki tíðindalaust.

Tölfræði leiksins

Kári Viðarsson