Njarðvíkurstúlkur tóku í kvöld á móti ÍR í síðasta leik 2018 í fyrstu deild kvenna. Njarðvík situr í 3. sæti og ÍR í 6. sæti. ÍRstúlkur mættu til leiks án þjálfara síns, Ólafs Jónas Sigurðssonar sem eignaðist barn í dag og óskum við á karfan.is honum innilega til hamingju með það. Í fjarveru Ólafs hélt Bryndís Gunnlaugsdóttir aðstoðarþjálfari ÍR um stjórnartaumana.

Leikurinn byrjaði með miklum látum og hraða þar sem báðir bekkirnir létu heyra vel í sér. Jafnt var með liðunum megnið af leikhlutanum. Staðan eftir fyrsta leikhluta 13 – 14.

Annar leikhluti byrjaði eins og sá fyrsti endaði. Bæði lið að spila hörku vörn og sýna mikla baráttu. Leikurinn var jafn framan af en þegar líða fór á leikhlutann náðu ÍRingar að búa sér til tveggja körfu forystu en Njarðvíkingar voru snöggar að ná því niður. Staðan í hálfleik 32 – 33.

Það var orðið ljóst í þriðja leikhluta að leikmenn beggja liða ætluðu að skilja allt eftir á parketinu fyrir jólafríið. Það voru þó heimastúlkur sem smám saman byggðu upp forystu og voru komnar 8 stigum yfir þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af leiknum. Njarðvíkurstúlkur héldu vel á spilunum og enduðu þriðja leikhluta 10 stigum yfir, 60 – 50.

ÍRingar eltu og Njarðvíkingar héldu. Baráttan þó enn í 5 gír hjá báðum liðum í fjórða leikhluta. ÍRstúlkur höfðu ekki erindi sem erfiði og heimastúlkur gerðu vel að klára leikinn 73 – 63.

Byrjunarlið:

Njarðvík: Júlía Scheving Steindórsdóttir, Vilborg Jónsdóttir, Jóhanna Lilja Pálsdóttir, Eva María Lúðvíksdóttir, og Kamilla Sól Viktorsdóttir.

ÍR: Sigurbjörg Rós Sigurðardóttir, Birna Eiríksdóttir, Nína Jenný Kristjánsdóttir, Hrafnhildur Magnúsdóttir og Arndís Þóra Þórisdóttir.

Þáttaskil:

Þriðji leikhluti var leikhluti Njarðvíkurstúlkna. Þegar líða fór á leikhlutann fóru skotin að detta og Njarðvíkurstúlkur byggðu upp 10 stiga forystu sem dugði þeim til sigurs.

Tölfræðin lýgur ekki:

ÍRstúlkur voru yfir í flestum tölfræðiliðum nema tveggja stiga skotum. Njarðvíkurstúlkur hittu mun betur fyrir innan þriggjastiga línuna og það skilaði þeim sigri í dag, 53% – 31%.

Hetjan:

Gamla kempan Birna Eiríksdóttir sýndi frábæra takta fyrir ÍR, skilaði 24 stigum, 13 fráköstum og 30 framlagspunktum. Eva María Lúðvíksdóttir og Júlía Scheving Steindórsdóttir áttu mjög góðan leik fyrir Njarðvík en hin 15 ára gamla Vilborg Jónsdóttir átti stórleik og skilaði 24 stigum, 10 fráköstum og fiskaði 13 villur.

Kjarninn:

Skemmtilegur og hraður leikur sem hefði getað fallið á báða vegu. Bæði lið mættu stemmd og tilbúin í leikinn og hann var góð skemmtun á að horfa. Njarðvíkurstúlkur eiga ýmislegt eftir ólært en það er gaman að fylgjast með þeim vaxa með hverjum leik. Baráttann og kannski ögn meira þol skilaði þeim sigrinum í kvöld.

Tölfræði

Myndasafn

Viðtöl: