Snæfell og Stjarnan mættust í Stykkishólmi í dag. Mikilvægur leikur þar sem Stjarnan getur komið sér nær toppnum með sigri. Heimakonur geta hins vegar með sigri komist upp að hlið KR á toppi deildarinnar.

Byrjunin

Stjarnan byrjaði leikinn miklu betur og leiddu eftir 1. leikhluta með 12 stigum (11-23). Leikur Stjörnunnar einkenndist að boltahreyfingu og baráttugleði. Á meðan heimakonur drippluðu mikið og tóku erfið skot. Stjörnukonur lokuðu leiðum að körfunni og reyndist sú vörn erfiðlega fyrir Hólmara, Snæfellsstelpur voru oft á tíðum starandi á þann sem var dripplandi í stað þess að hreyfa sig örlítið til þess að opna vörnin.

Allt annað

Í 2. leikhluta snerist þetta algjörlega við. Snæfell fór að hreyfa boltann og þristar hjá Rebekku og Helgu Hjördísi kveiktu neista í liðinu og stúkunni. Stundum þarf bara einn þrist og allt verður betra. Gestirnir fóru dýpra á bekkinn og um leið var þæginlegra fyrir Snæfell að spila sinn leik. Stjarnan hafði engin svör í leikhlutanum. Snæfell spiluðu frábæra vörn og sóknin varð betri með hverri mínútunni sem leið. Í hálfleik var staðan 36-30 fyrir Snæfell. Snæfell vann því fjórðunginn 25-7!

Katarina

Í 3. leikhluta gat enginn leikmaður stigið Katarinu, leikmann Snæfells, út. Hún tók hvert sóknarfrákastið eftir öðru og gaf heimakonum möguleika á tveimur og stundum þremur skotum í sókn. Hún var frábær í leikhlutanum.

Búið spil

Hólmarar héldu áfram að spila frábæra vörn og kom fyrsta karfa utan af velli hjá Stjörnunni þegar sjö og hálf mínúta var liðin af síðari hálfleik. Snæfell settu hvern þristinn á fætur öðrum og fóru með 23 stiga mun inn í 4. leikhlutann. Stjarnan gerði atlögu fyrstu mínúturnar í 4. leikhluta, þær komu muninum niður í 16 stig en um leið og Snæfell settu niður nokkrar körfur fjaraði undan hjá gestunum og heimakonur kláruðu leikinn með frábærum sigri 81-58. Það voru allir að leggja í púkinn hjá Snæfell og gaman var að fylgjast með leikgleði stelpnanna. Stjarnan hins vegar hafi litla trú á verkefninu.

Mikilvægir punktar:

  • Katarina tók alls 10 fráköst og þar af 7 sóknarfráköst og var mögnuð í leiknum.
  • Snæfell hélt Stjörnunni í 35 stigum í síðustu þremur leikhlutunum
  • Stjarnan gaf 5 stoðsendingar í 1. leikhluta og enduðu leikinn með 11.
  • Andrea Björt er komin í búning og verður breiddin þá enn meiri hjá Snæfell
  • Snæfell er á toppnum ásamt KR
  • Stjarnan situr í 4. sætinu einum sigri á undan Val.

Tölfræði 

Leikurinn á Snæfell TV

Umfjöllun: Gunnlaugur Smárason