Í hverri viku munu sérfræðingar Körfunnar spá fyrir um hverja umferð í Dominos deildunum. Sérfræðingarnir verða fyrrum körfuboltamenn, þjálfarar, áhugamenn eða einhver allt annar.

Ellefta umferð Dominos deildar karla rúllar af stað í kvöld með tveimur leikjum. Umferðin er sú síðasta fyrir jólafrí og því öll lið sem leggja kapp á að fara inní nýtt ár með sigur.

Spámaður vikunnar er leikmaðurinn, þjálfarinn og núverandi fjölmiðlamaðurinn Kjartan Atli Kjartansson. Kjartan eins og flestir vita stýrir Dominos Körfuboltakvöldi og setur spá umferðarinn fram hér að neðan ________________________________________________________________________

ÍR – Grindavík

Liðin eru jöfn að stigum en stemningin í kringum þau hefur verið afar ólík. ÍR-ingar hafa verið nokkuð þéttir, á meðan tímabil Grindvíkinga hefur verið eins og tónverk eftir Ungverjann Franz Liszt; kaflaskipt mjög.

Ég held að þessi leikur verði jafn og að úrslitin ráðist á síðustu sekúndum. Ætli heimavöllurinn ráði ekki úrslitum? Tippa á sigur Breiðhyltinga.

Stjarnan – Haukar

Hafnfirðingar eru nú í ólgusjó, eftir fráhvarf Marques Oliver. Mér þykir Ívar hafa náð að hnoða degið sitt vel og gert fínustu köku úr hráefninu sem hann hefur úr að spila. En Oliver er kremið á kökuna og þegar hann vantar þá er þetta helst til of þurrt og bragðdauft.

Stjarnan vinnur þennan leik undir stjórn Arnars Guðjónssonar sem hefur verið eins og hljómsveitarstjórinn og goðsögnin Arturo Toscanini á hliðarlínunni í vetur. Þetta verður að minnsta kosti 15 stiga sigur Garðbæinga.

Þór – Valur

Ef leikstjórnendur Domino’s-deildarinnar væru allir impressionistar þá væru þeir Kendall Lamont og Nikolas Tomsick þeir Debussy og Ravel. Mér hefur þótt unun að fylgjast með þeim í vetur.

Ég held liðsheild Þórs hafi þetta í þessum leik. Kinu Rochford mun reynast Valsvörninni óþægur ljár í þúfu. Leikurinn verður í járnum fram í byrjun fjórða, en þá munu heimamenn smella í gang og búa til forskot sem Valsmenn ná ekki að klippa niður.

Breiðablik – KR

KR-ingar hafa hikstað verulega upp á síðkastið, en sigurinn gegn ÍR í síðustu umferð var frekar klikk hjá Breiðhyltingum en “vel gert” hjá KR-ingum.

Blikar þurfa svo sannarlega á sigri að halda, fallbarátta þeirra er löngu byrjuð og þeir róa nú lífróður þrátt fyrir að tímabilið verði aðeins hálfnað eftir leikinn. Þannig ættu grænir að nálgast alla leiki sem eftir eru; þeir eru upp á líf og dauða.

En KR er of gott lið fyrir Blika. Ég held að KR-ingar muni finna grúvið snemma og klára þetta í fyrri hálfleik, sprengja leikinn upp. Örggur sigur KR í Smáranum.

Skallagrímur – Njarðvík

Rétt eins og Blikar eru Skallagrímsmenn að berjast fyrir tilverurétti sínum í deild þeirra bestu. Elvar Már Friðriksson hefur lokað hverjum leiknum á fætur öðrum fyrir Njarðvíkinga þrátt fyrir sakleysilegt útlit. Ég geri orð Robert Schumann um Fredrik Chopin að mínum og nota þau um Elvar Má, því það “leynast fallbyssur undir blómaskrúðinu” þegar kemur að þessum frábæra leikstjórnanda.

Elvar mun leiða sína menn til sigurs sem verður þó ekki öruggur og hart barist fram að lokaflauti.

Keflavík – Tindastóll

Stærsti leikur umferðarinnar verður í Keflavíkinni. Tindastólsliðið hefur verið afar sannfærandi og unnið sína leiki stórt á meðan Keflvíkingar hafa leitast við að gera leiki sína eins spennandi og kostur er. Þetta verður spennuleikur en ég held að Michael Craion muni reynast piltunum frá Sauðárkróki erfiður viðureignar og mun það ráða úrslitum.

Naumur sigur Keflvíkinga í síðasta leik þeirra á árinu.

Spámenn tímabilsins: