Keflvíkingar mættu Valsmönnum að Hlíðarenda í kvöld. Fyrir leikinn voru Keflvíkingar í þriðja sæti deildarinnar en Valsmenn í því tíunda eftir fínt gengi að undanförnu og því ljóst að bæði lið ætluðu sér sigur.

Eftir sterka byrjun Suðurnesjamanna þar sem þeir komust í 7-0 þá rönkuðu Valsarar við sér og komust inn í leikinn. Leikurinn var svo jafn þangað til í seinni hálfleik þegar að Keflvíkingar áttu gott áhlaup og náðu forystu sem þeir létu aldrei fyllilega af hendi. Niðurstaðan 77 – 86 fyrir Keflvíkinga.

Gunnar Ólafsson var besti maður vallarins í kvöld, skellti í 30 stig í 17 skotum og tók 6 fráköst. Gunnar spilaði líka frábæra vörn á besta mann Vals, Kendall Anthony sem náði sér ekki á strik, lauk leik með 17 stig og var stigahæstur í liði heimamanna.

 

Kjarninn

Bakvarðasveit Keflvíkinga með þá Gunnar Ólafsson og Hörð Axel fremsta í flokki spilaði gríðarlega grimma vörn og gerðu bakvörðum vals erfitt fyrir. Þeir náðu að mestu leiti að loka á Kendall Anthony sem var einungis með 3/13 í skotum. Virkilega gott dagsverk hjá þeim Herði og Gunnari. Að hugsa sér að liðið eigi inni Reggie Dupree sem er einnig frábær varnarmaður.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Valsarar fóru oft illa að ráði sínu með boltann og töpuðu 19 boltum gegn 11 hjá gestunum. Hörður Axel var til að mynda með 4 stolna bolta og eftir 2 þeirra gat hann labbað í sniðskot. Þá voru gestirnir líka mun duglegri að hreyfa boltann og luku leik með 17 stoðsendingar gegn einungis 10 hjá heimamönnum.

 

Maður leiksins

Þarna kemur bara einn leikmaður til greina. Gunnar Ólafsson var algerlega frábær í leiknum bæði varnarlega og sóknarlega. Setti niður 76% skota sinna og var mjög skilvirkur í öllum sínum aðgerðum. Þá spilaði kappinn einnig frábæra vörn allan leikinn. Michael Craion var einnig illviðráðanlegur í teignum og setti 26 stig og tók 12 fráköst.

 

Tölfræði leiksins