Tíundu umferð Dominos lauk í kvöld með einum leik. Þar tóku þjálfaralausar Skallagrímskonur á móti Keflavík.

Skallagrímsliðið mætti heldur betur rétt gírað til leiks og unnu fyrsta leikhluta 29-19. Borgnesingar voru í bílstjórasætinu fram í fjórða leikhluta og virtist vera að liðið ætlaði að landa góðum sigri á Keflavík.

Mikill viðsnúningur varð í fjórða leikhluta þar sem Borgnesingar voru með níu stiga forystu þegar fimm mínútur voru eftir. Keflavík tók þá gott áhlaup og tókst að stela sigrinum með frábærum lokasprett. Lokastaðan 83-89 fyrir Keflavík.

Brittany Dinkins var einu sinni sem oftar atkvæðamest hjá Keflavík með 38 stig og þá vantaði hana eitt frákast í þrennuna. Hún bætti við níu fráköstum og 10 stoðsendingum auk 6 stolna bolta. Bryndís Guðmundsdóttir var með 15 stig og 11 fráköst.

Hjá Borgnesingum var Shequila Joseph frábær með tröllatvennu, 25 stig og 21 frákast. Einungis sex leikmenn spiluðu meira en 16 sekúndur og má því segja að breiddarmunurinn á liðunum hafi riðið baggamun í lokin.

Keflavík er þá aftur komið í toppsætið en þrjú lið eru jöfn við toppsætið. Þar eru Snæfell og KR auk Keflavíkur og því ansi ljóst að spennandi umferðir eru framundan.

Tölfræði leiksins