Keflavík tók í kvöld á móti Breiðablik í 12. umferð dominos deildar kvenna. Keflavíkurstúlkur sátu í efsta sæti deildarinnar fyrir leikinn og Blikastúlkur í því neðsta. Til þess að halda efsta sætinu var nauðsynlegt fyrir Keflvíkinga að sigra en að sama skapi þá þurftu Blikar á því að halda að krækja sér í stig. Það hefur gengið illa hjá Blikum að sækja sér sigra. Oft hafa þær verið nálægt en þær hafa ekki náð að klára nema einn leik með sigri í vetur. Liðin áttust við í lok október og þá náðu Blikar að stríða Keflavík aðeins, sem knúði þó fram sigur í fjórða leikhluta.

Keflavíkurstúlkur byrjuðu leikinn af miklum krafti og komust í 11 – 4 á fyrstu tæpu þrem mínútunum. Breiðabliksstúlkur tóku leikhlé og gerðu í kjölfarið vel í að missa Keflvíkinga ekki algjörlega frá sér og koma sér hægt og rólega inn í leikinn, staðan að fyrsta leikhluta loknum 23 – 21.

Liðin skorðuðu til skiptis fyrstu mínútur annars leikhluta. Blikar komust í fyrsta skipti yfir eftir rúmar 4 mínútur en Keflavíkingar svöruðu strax og tóku aftur forystuna. Heimastúlkur héldu henni og bættu aðeins í en gestirnir gerðu einstaklega vel síðustu sekúndur leikhlutans, staðan í hálfleik 45 – 44.

Bæði lið mættu grimm í seinni hálfleik. Keflavíkurstúlkur fóru að búa til forystu hægt og rólega og voru komnar 9 stigum yfir þegar 3 mínútur voru eftir af þriðja leikhluta. Staðan fyrir fjórða leikhluta 75 – 66.

Fjórði leikhluti byrjaði ekki á neinni flugeldasýningu. Mikið um mistök hjá báðum liðum. Það voru þó heimastúlkur sem voru fyrr til að átta sig og komust mest 16 stigum yfir um miðbik leikhlutans. Þetta reyndist Blikum of mikið til að sækja og sigur Keflavíkur því staðreynd 100 – 85.

Byrjunarlið:
Keflavík: Bryndís Guðmundsdóttir, Embla Kristínardóttir, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir, Brittanny Dinkins og Erna Hákonardóttir.
Breiðablik: Sanja Orazovic, Ragnheiður Björk Einarsdóttir, Bryndís Hanna Hreinsdóttir, Björk Gunnarsdóttir og Kelly Faris.

Þáttaskil:
Um miðjan þriðja leikhluta náðu Keflavíkurstúlkur loksins að búa til smá forskot á Blikana. Blikar sem höfðu hangið vel í Keflvíkingum allan leikinn náðu aldrei að komast aftur inn í leikinn.

Tölfræðin lýgur ekki:
Keflavík hitti mun betur í tveggja stiga skotum og það munaði mikið um það í kvöld, 60% – 38%.

Hetjan:

Kelly Faris (29 stig, 15 fráköst og 31 í framlag) og Sanja Orazovic (23 stig, 14 fráköst og 29 í framlag= voru mjög sprækar hjá Blikum. Salbjörg Ragna Sævarsdóttir var mjög góð setti 21 stig, tók 11 fráköst og var með 31 framlagspunkta. Bryndís Guðmundsdóttir var einnig góð í kvöld, skilaði 12 stigum og 10 fráköstum. Irena Sól Jónsdóttir átti góða innkomu af bekknum og setti 13 stig en það var þrennudrottningin Brittanny Dinkins sem var best á vellinum með 29 stig, 13 fráköst, 10 stoðsendingar og 42 í framlag.

Kjarninn:
Keflvíkurstúlkur áttu ekki sinn besta leik og Blikar gerðu vel að hanga í þeim framan af leik. Það þarf meira en tvo/þrjá góða leikhluta til að klára Keflavík og Blikar höfðu ekki það sem þurfti í kvöld. Keflavík er því á toppnum í jólafríinu.

Tölfræði

Viðtöl: