Helena Sverrisdóttir gekk í gær til liðs við Val í Dominos deild kvenna. Eins og flestir vita er Helena bæði uppalin hjá Haukum í Hafnarfirði, sem og hefur hún leikið með meistaraflokki félagsins þegar hún hefur verið á landinu, ekki í skóla eða hjá liði á meginlandi Evrópu.

Fyrr í vikunni var ljóst að Helena væri á leiðinni heim til Íslands. Gerðu þá einhverjir ráð fyrir að gefið væri að hún myndi semja við sitt félag í Hafnarfirði. Þar sem hún bæði vann Íslandsmeistaratitilinn og var valin best á síðasta tímabili. Allt kom fyrir ekki og eins og sjá má í yfirlýsingu hennar fyrrum félags, er ekki um neitt ósætti að ræða.

Í yfirlýsingunni minnast Haukar þeirra fjöldamörgu gleðistunda sem Helena hefur skapað fyrir stuðningsfólk liðsins og aðra Íslendinga. Þá er einnig minnst á að Valur sé systurfélag Hauka, en yfirlýsinguna í heild er hægt að lesa í þessari Facebook færslu hér fyrir neðan.