Valsarar unnu sterkan útisigur á Skallagrím í áttundu umferð Dominos deildar kvenna í kvöld. Skallagrímur var öflugri framan af en Valsarar stigu upp í seinni hálfleik og unnu að lokum sannfærandi sigur 74-96 í Borgarnesi.

Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan:

Vörn Skallagríms bara í byrjun

Orkan var gríðarlega mikil í liði Borgarnesinga í upphafi. Liðið hélt Val í 12 stigum á fyrstu sex mínútunum. Skallagrímur hafði greinilega komið Val á óvart með því að spila svæðisvörn í upphafi sem virkaði nokkuð vel. Eftir þessar sex fyrstu mínútur ákváðu Borgnesingar hinsvegar að hætta að spila vörn. Að minnsta kosti var varnarleikur liðsins hörmung, róteringar slakar og Valsarar gerðu vel refsa þeim fyrir.

Kviknaði í Butler

Nýr amerískur leikmaður Vals Heather Butler lét lítið fyrir sér fara framan af leik. Var einungis með tvö stig eftir fimmtán mínútna leik. Hún gaf hinsvegar mikið af sér og var með sex stoðsendingar. Hún datt hinsvegar heldur betur í gírinn þegar leið á og endaði með 25 stig, þá setti hún fimm þriggja stiga skot í sex tilraunum. Sterkur leikmaður sem Valsarar fengu þar.

Valsarar spóla yfir gular í byrjun seinni

Seinni hálfleikur var rétt farinn af stað þegar Valsarar hreinlega keyrðu yfir Skallagrím. Munurinn skyndilega orðinn nærri 20 stigum en liðið setti skotin sín og spiluðu öfluga vörn á móti.

Valur þarf að nýta þennan sigur til að komast í gang

Valsarar hafa valdið hreinum og klárum vonbrigðum á tímabilinu og höfðu einungis unnið tvo leiki fyrir þennan. Liðið sat í næst neðsta sæti og frammistaðan ósannfærandi. Annað var uppá teningnum í dag og einkenni liðsins frá síðustu leiktíð farin að sjá aftur. Gríðarlega góður útisigur fyrir Val sem gætu nýtt þennan leik til að snúa stemmningunni sér í hag.

Hver er hlutverkaskipanin?

Skallagrímsliðið hefur farið ágætlega af stað í Dominos deildinni. Tapið í kvöld er hinsvegar fyrsta tapið á heimavelli, sem ætti að vera þeirra helsti styrkleiki. Það eru mjög greinilega mikilir hæfileikar í liðinu en leikmenn virðast ekki þekkja hlutverk sín og þá sérstaklega ekki sóknarlega. Leikmenn keppast við að taka vond skot í sókninni, hreinlega eins og þær ætli sér allar að sigra heiminn. Hlutverkaskipanin þarf að vera skýrari og það sem meira er, leikmenn þurfa að vera sáttir í sínum hlutverkum.

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Ólafur Þór)

Viðtöl: