Körfuboltaáhugamenn á Sauðárkróki áttu von á jöfnum leik í Síkinu í kvöld þegar ÍR-ingar komu í heimsókn. Viðureignir þessara tveggja liða höfðu verið mikill barningur á síðasta tímabili og þau skipst á sigrum í deild og úrslitakeppni þannig að heimamenn voru alls ekki vissir um sigur fyrirfram þrátt fyrir að Stólar hefðu gert góða ferð í Garðabæinn í síðustu umferð og lagt Stjörnuna. En Tindastólsliðið sýndi frábæran leik og hreinlega slátruðu gestunum eftir jafna byrjun.

Fyrsti leikhlutinn var jafn eins og áður segir og heimamenn virtust ætla að lenda í sama fari og oft áður, að falla niður á plan gestanna í stað þess að stjórna leiknum. Eftir tæpar 5 mínútur í öðrum leikhluta hafði Israel Martin fengið nóg, tók leikhlé og setti hárblásarann á túrbó á sína leikmenn. Þeir brugðust vel við vægast sagt, skelltu nánast í lás í vörninni og fóru að keyra sín kerfi í sókninni sem hafði gengið brösulega. ÍR skoraði einungis 2 stig í viðbót í hálfleiknum og komust síðan ekki á blað í þriðja leikhluta fyrr en rúmar 2 mínútur voru liðnar. Á meðan gerðu heimamenn 23 stig og kláruðu í raun leikinn, komnir með 30 stiga forskot þegar tæpar 4 mínútur voru liðnar af 3ja leikhluta. Heimamenn bættu svo bara við, héldu áfram einbeitingu í vörninni og náðu mest 42 stiga forskoti undir lok leiksins. Ótrúlegar tölur í efstu deild og niðurlæging ÍR-inga alger, þeir sáu aldrei til sólar eftir að Tindastóll setti í gír.

Allir byrjunarliðsmenn Stólanna skoruðu yfir 10 stig í leiknum og Philip Alawoya stimplaði sig vel inn í leik liðsins með 13 stig og 13 fráköst. Pétur Rúnar, Dino og Brynjar voru allir að spila vel auk þess sem Danero fór illa með sína gömlu félaga á köflum. ÍR-ingar vilja sjálfsagt gleyma þessum leik sem fyrst, Sigurður Gunnar var sá eini með lífsmarki og setti 15 stig og reif niður 8 fráköst en annars var fátt um fína drætti.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Viðtal-Dino eftir leik:

 

Umfjöllu, myndir, viðtal / Hjalti Árna