Ísland tók í kvöld á móti Belgum í hópi C í forkeppni, undankeppni Evrópukeppni landsliða. Fyrir leikinn höfði Íslendingar tapað naumlega á móti Portúgal sem Belgar unnu naumlega.

Fyrsti leikhluti byrjaði með svellköldum þristi frá Hlyn. Liðin skiptust á að skora en það voru okkar menn sem kláruðu leikhlutann betur. Í stöðunni 15 – 15 með rétt rúma mínútu eftir af fyrsta leikhluta, setti Ísland niður 7 ósvöruðum stigum. Staðan að fyrsta leikhluta loknum 22 – 15.

Belgarnir voru ögn einbeittari í öðrum leikhluta en síðustu mínútu þess fyrsta og komust yfir þegar um 3 mínútur voru eftir leikhlutans. Belgarnir hittu gríðarlega vel úr þriggja stiga skotum í leikhlutanum og þrátt fyrir ágæta vörn Íslands gekk illa að halda í við þá. Staðan í hálfleik 34 – 43.

Liðin skiptust á því að skora í þriðja leikhluta. Á síðustu mínútum leikhlutans voru Íslendingar þó sterkari og náðu að kroppa aðeins af forystu Belga. Staðan fyrir fjórða og síðasta leikhluta 50 – 56.

Ísland gerði margsinnis atlögu að Belgum en tókst aldrei að ná þeim. Það ber ekki mikið á milli þessara liða og lokatölur engan vegin lýsandi fyrir gang leiksins, en það voru Belgar sem fóru heim með sigurinn 66 – 79.

Byrjunarlið:

Ísland: Hörður Axel Vilhjálmsson, Jón Arnór Stefánsson, Tryggvi Hlínarson Ólafur Ólafsson og Hlynur Bæringsson.

Belgía: Sam Van Rossom, Quentin Serron, Pierre-Antonie Gillet, Khalid Boukichou og Vincent Kesteloot.

Þáttaskil:

Annar leikhluti reyndist Íslandi dýr. Jafnvel þótt liðið hefði búið til ágæta forystu í fyrsta leikhluta, þá átu Belgarnir hana í öðrum og bættu um betur og fóru 9 stigum yfir inn í hálfleikinn. Munur sem Ísland náði aldrei að vinna upp.

Tölfræðin lýgur ekki:

Belgar hittu mun betur úr þristum en Íslendingar, 8/25 – 12/29.

Hetjan:

Tryggvi, Hlynur, Hörður Axel og Elvar Már áttu allir fínan leik fyrir Íslands hönd. Sam Von Rossom leikmaður Valencia og Belga var manna bestur hjá gestunum með 17 stig.

Kjarninn:

Ísland á fullt erindi í lið Belga og hefði með betri leik unnið í kvöld. Frábær fyrsti leikhluti og sæmilegur þriðji er bara ekki nóg þegar maður mætir tæplega til leiks í öðrum leikhluta. Vörnin var fín í kvöld en það vantaði aðeins upp á sóknina. Ísland þarf að eiga í það minnsta góðar tæplega 40 mínútur til að vinna lið eins og Belga.

Tölfræði