Þór Þorlákshöfn heimsótti Breiðablik í Smáranum í gærkvöldi í 7. umferð Domino’s deildar karla. Bæði lið höfðu beðið lægri hlut í seinustu umferð og þurftu nauðsynlega á sigri að halda til að vænka hag sinn. Þórsarar höfðu bætt við sig hinum serbneska Jaka Brodnik sem hafði lent um hádegi daginn áður og aðeins náð einni æfingu með liðinu.

Í annað sinn á tveimur dögum var sannkölluð skotsýning í boði í körfunni, en líkt og á miðvikudaginn í leik ÍR-Vals spilaði hvorugt liðið vott af vörn framan af sem skilaði sér í stöðunni 48-57 í hálfleik. Ljóst var að það stefndi í svipaðan leik og daginn áður í Hertz-hellinum, þar sem lokastaðan varð 118-100.

Seinni hálfleikurinn var ekki ósvipaður og sá fyrri, en Blikar voru að elta Þórsara alveg þar til þeir tóku loks forystuna á lokasekúndum þriðja leikhluta eftir körfu og víti hjá Hilmari Péturssyni, 77-76. Kópavogspiltarnir gleymdu hins vegar að spila vörn á seinustu sekúndunum og Nikolas Tomsick gat keyrt upp völlinn og sett flautuþrist til að koma gestunum upp 77-79 fyrir lokafjórðunginn.

Liðin héldu áfram að skiptast á körfum en Breiðablik gat skriðið fram úr í fjórða og haldið forystunni í dágóðan tíma. Það virtist eins og heimamenn væru nánast búnir að vinna þegar Kinu Rochford fór út af með 5 villur á lokamínútunum. Nik Tomsick tók sig þá til og bar sóknarleik Þorlákshafnar uppi seinustu mínúturnar, en hann setti öll 12 stig Þórs á lokakaflanum, þ.á.m. flautuþrist til að vinna leikinn, 107-110!

Lykillinn

Nikolas Tomsick var lykillinn að sigri Þórs í kvöld gegn Breiðablik. Hann skoraði 39 stig, gaf 5 stoðsendingar, stal 4 boltum og hitti úr 8 af 14 þriggja stiga tilraunum sínum í leiknum (57% 3ja nýting)! Hann var þó ekki framlagshæstur (34 framlagspunktar) því að Kinu Rochford skoraði 30 stig, tók 15 fráköst og gaf 8 stoðsendingar og endaði með 43 í framlag. Blikamegin stóð Christian Coville sig best; hann skoraði 33 stig, tók 7 fráköst og gaf 4 stoðsendingar (34 framlagsstig á heildina).

Shootout í fjórða

Blikar og Þórsarar tóku samtals 23 þriggja stiga skot í lokafjórðungnum (8 hjá heimamönnum, 13 hjá gestunum), og af þeim fóru 13 niður, sex hjá Breiðablik og sjö hjá Þór Þorlákshöfn! 14 af 15 seinustu skotum leiksins voru þristar! Þrátt fyrir 80% þriggja stiga nýtingu hjá Breiðablik í fjórða þá átti Nik Tomsick lokaskotið sem rataði rétta leið. Nik setti 6 þrista í fjórða leikhluta sem verður líklega seint endurtekið.

Kjarninn

Sannkallaður stórsóknarleikur þar sem leikurinn var jafn og spennandi allt til loka! Það er magnað að lið geti skorað 107 stig á 40 mínútum og samt ekki unnið! Þetta skor minnti helst á NBA-leik og lokamínúturnar voru jafn æsilegar! Athygli vakti að Breiðablik hafði villu til að gefa á lokasekúndunum en gátu samt ekki brotið á manninum með boltann í höndunum sem hafði nú þegar sett 5 þrista í fjórðungnum. Ótrúlegur lokakafli og Þórsarar örugglega þrælsáttir við tvö stigin.

Samantektin

Undirritaður hefur fram að þessu ekki viljað segja af eða á með hvort að rýmkun útlendingareglunnar í íslensku körfunni væri heillaspor eða ekki. Leikir eins og þessir og hversu jöfn og spennandi deildin virðist vera fer þó langa leið með að sannfæra flesta um að þetta er mögulega mest spennandi deildin í langan tíma. Blikar mega alveg vera hundfúlir með annað tap og Þórsarar minnast þessa sigurs lengi vel, en áfram heldur deildarkeppnin og við eigum eflaust von á mörgum fleiri svona leikjum!

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Bjarni Antons)

Viðtöl eftir leik:

Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndir / Bjarni Antonsson