Stjörnukonur tóku á móti KR í Domino’s deild kvenna á sunnudagskvöldinu 25. nóvember. Var þetta annað skiptið sem liðin mættust í deildinni í ár, en fyrri leiknum lauk með sigri Stjörnunnar í spennandi leik í DHL-höllinni, 74-78. Leikur gærkvöldsins var þó í raun aldrei sérstaklega spennandi. Gestirnir úr Vesturbænum tóku mjög fljótt frumkvæðið og náðu mest 25 stiga forystu í fyrri hálfleik, 20-45 og höfðu 16 stiga forskot í hálfleik, 32-48. Eftir það náðu Stjörnukonur aldrei að ógna gestunum að neinu ráði, en þrátt fyrir ágætis rispur Garðbæinga var niðurstaðan nokkuð öruggur sigur KR, 69-82.

Af hverju vann KR?

Fyrstu 17 mínútur leiksins eða svo var aðeins eitt lið á vellinum, en líkt og áður sagði náði KR 25 stiga forskoti strax í fyrri hálfleik. KR-ingar spiluðu mjög fínan sóknarbolta þar sem margir leikmenn lögðu sitt af mörkum, á meðan Stjörnukonur virtust ekki átta sig á að leikurinn væri byrjaður fyrr en seint í öðrum leikhluta. Stjarnan náði aðeins að bíta frá sér í seinni hálfleik, og náði muninum undir 10 stig í einhver skipti, en gestirnir náðu alltaf að kæfa endurkomuna í fæðingu.

Lykill

Orla O’Reilly var mjög góð í liði gestanna, en sú írska lauk leik með 29 stig og 11 fráköst.

Framhaldið

Eftir leik eru KR-ingar á toppi Domino’s deildarinnar með 14 stig, ásamt Keflavík og Snæfelli, en Stjörnukonur eru í því fjórða með 10 stig. Næst tekur KR á móti Val miðvikudaginn 28. nóvember, en næsti leikur Stjörnunnar er gegn Snæfelli í Stykkishólmi, sunnudaginn 2. desember.