Í kvöld tóku bikarmeistarar Keflvíkingar á móti nýliðum KR í toppslag 7. umferðar Íslandsmótsins. Fyrir leik eru Keflavíkurstúlkur með 8 stig og KR-stúlkur með 10 stig. Sannarlega frábær byrjun hjá nýliðunum. Fyrsti leikhluti var nokkuð jafn. Bæði liðin gerðust þó sek um einhver mistök. Það voru gestirnir sem leiddu að honum loknum 19 – 21.

Gestirnir voru öllu hressari í öðrum leikhluta og heimastúlkur í raun heppnar að missa þær ekki lengra frá sér, staðan í hálfleik 40 – 45. Hvorugt liðið var mjög sannfærandi í sínum aðgerðum í þriðja leikhluta. Staðan fyrir fjórða og síðasta leikhluta 55 – 60. Brittanny Dinkins sem var ágæt fram að fjórða leikhluta vaknaði virkilega til lífsins og tók öll völd á vellinum og kom heimstúlkum yfir þegar um 5 mínútur voru eftir af leiknum. KR gerði atlögu að Keflavík á lokamínútunni en það dugði ekki til og Keflavík vann góðan sigur 77 – 73.

 

Byrjunarlið:

Keflavík: Bryndís Guðmundsdóttir, Katla Rún Garðarsdóttir, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir, Brittanny Dinkins og Erna Hákonardóttir.

KR: Kiana Johnson, Orla O‘Reilly, Ástrós Lena Ægisdóttir, Unna Tara Jónsdóttir og Perla Jóhannsdóttir.

 

Þáttaskil:

Brittanny Dinkins sem var búin að vera ferskust í liði heimamanna tók öll völd á vellinum í byrjun fjórða leikhluta og kom Keflavíkurstúlkum inn í leikinn. Hún hélt uppteknum hætti og hreif liðið með sér til sigurs.

 

Tölfræðin lýgur ekki:

Keflvíkingar hittu betur og það bjargaði þeim fyrir horn í kvöld. 53% – 41% í tvistum og 32% – 24% í þristum.

 

Hetjan:

Besti leikmaður gestanna var Kiana Johnson, 36 stig, 17 fráköst og 47 í framlag. En hetja leiksins er Brittanny Dinkins, 37 stig, 10 fráköst og 35 í framlag. Þótt Kiana Johnson hafi skilað meiru til síns liðs framan af leik, þá var það Brittanny Dinkins sem hafði úthald og getu til að klára leikinn fyrir Keflavík.

 

Kjarninn:

Það er ekki nóg að leiða leik í 35 mínútur. KR náði aldrei að hrista Keflavík af sér og höfðu ekki næg svör þegar Keflvíkingar stigu upp í fjórða leikhluta. KRingar eiga þó hrós skilið fyrir að koma til baka og reyna að stela sigrinum á lokamínútunum. Það verður gaman að fylgjast með nýliðunum í ár.