Alba Berlín þurfti framlengingu til að leggja tyrkneska liðið Tofus í EuroCup evrópukeppninni í gær. Leikurinn var hnífjafn en Alba náði í 106-101 sigur að lokum.

Martin Hermannsson var að vanda öflugur í liði Alba og setti 11 stig, 8 stoðsendingar og 3 fráköst á 23 mínútum í leiknum.

Martin þurfti þó frá að hverfa þegar átta mínútur voru eftir af fjórða leikhluta vegna meiðsla. Hann lék ekki meira af leiknum og gat því ekki hjálpað liðinu að landa sigrinum í framlengingunni.

Leikmaðurinn tísti í gærkvöldi þar sem hann sagði frá því að eðli meiðslanna kæmu í ljós í dag þegar hann færi í myndatöku. Læknir liðsins mun hafa sagt að hann gæti verið frá í 4-6 vikur sem þýðir að hann mun missa af landsleiknum gegn Belgíu þann 29 nóvember næstkomandi.